Grindvíkingurinn Otti Sigmarsson skrifar færslu á facebook síðu sína fyrir helgi þar sem hann segir að álit og þekking almennings á stöðunni í Grindavík byggi á lélegum einhliða fréttaflutningi fjölmiðla í að verða tvö ár. Allir miðlar logi þegar jarðhræringar hefjast með tilheyrandi rýmingu og veseni fyrir þá sem búa og starfa í Grindavík. En minna sé talað um að hellingur sé um að vera í Grindavík á hverjum degi, hundruð sækja þar vinnu og ferðamenn í sumar skiptu líklega tugum þúsunda. Þá hafa einhverjir Grindvíkingar verið óánægðir með tal í Vikunni með Gísla Marteini á föstudagskvöldið. Og hefur Jón Gnarr, einn gesta þar, beðist afsökunar á orðum sínum í kjölfar viðbragðanna. Otti Sigmarsson var á línunni hjá okkur.
Þroskahjálp er þessa dagana að safna undirskriftun til að mótmæla því að skera á niður háskólanám fyrir fólk með þroskahömlun en eitt af því örfáa sem býðst fólki með þroskahömlun er starfstengt diplómanám við Háskóla Íslands. Nú er einungis tekið við nemendum annað hvert ár. Þroskahjálp krefst þess að stjórnvöld tryggi náminu fjármagn. Þær Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar og Jóhanna Brynja Ólafsdóttir, baráttukona fyrir mannréttindum, komu í Síðdegisútvarpið.
Boðhlaup söngvaskálda fer fram í Norðurljósasal Hörpu á morgun. Ef að GDRN semur lag fyrir Unu Torfa, hljómar það allt öðruvísi heldur en lag sem Una Torfa myndi semja fyrir sjálfa sig? Er Mugison lag ennþá Mugison lag ef Bríet syngur það? Hvar liggja höfundar einkenni söngvaskálda og hvernig hljómar það ef ekkert þeirra semur lag fyrir sjálft sig heldur einungis fyrir aðra? Boðhlaup Söngvaskálda fer fram með þeim hætti að eitt söngvaskáld semur lag sem næsta söngvaskáld í boðhlaupinu flytur. Flytjandinn semur svo eitt lag fyrir þann næsta í röðinni og svo koll af kolli. Þátttakendur geta ýmist flutt lagið einir og óstuddir eða nýtt sér hljómsveit sem einnig verður á sviðinu. Reglur boðhlaupsins kveða hins vegar á um að höfundur lagsins megi ekki taka þátt í flutningi þess. Bjarni Frímann Bjarnason, aðstandandi uppákomunnar og tónlistarkonan Bríet, sem er þáttakandi, koma til okkar.
Leikkona sem kom nýlega fram á sjónarsviðið hefur verið afar umdeild fyrir þær sakir að hún er ekki til í alvörunni. Hún er sögð vera í viðræðum við umboðsskrifstofur en mennskir leikarar segja að sniðganga eigi þá sem vinna með henni. Hollywood-leikarar eru margir ósáttir og uggandi vegna hennar en þeir segja hana vera tilfinningasnauða eftirlíkingu byggða á listsköpun annarra en skapari hennar segir hana vera listsköpun í sérflokki. Við ætlum að rýna aðeins í þetta en leikstjórinn Baldvin Z og Sigurgeir Arinbjarnarson brellumeistari ræddu við okkur um gervigreindarleikara.
Á föstudagskvöldum er sýnt beint frá Úrvalsdeildinni í Bridge á rafíþróttarásum Sjónvarps Símans, auk þess sem hægt er að fylgjast með á YouTube og Twitch. Mótið hefur verið mjög spennandi og er nokkuð um óvænt úrslit. Björn Þorláksson, bridge-spilari og lýsari, mætti í Síðdegisútvarpið í dag.
Tilnefningar til íslensku menntaverðlaunanna voru tilkynntar í dag. Þau verða svo afhent í byrjun nóvember og sýnir RÚV sérstakan þátt frá því eins og sl. ár. Formaður viðurkenningaráðs, Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir, sem kom í Síðdegisútvarpið og kynnti tilnefningarnar.