Síðdegisútvarpið 7. maí
Atvinnuvegaráðherra sagði í gær viðvörunarbjöllur óma þegar matvöruverð hækkar á sama tíma og krónan styrkist. Ríkistjórnin ræddi málið á fundi sínum í gær en ráðherra hefur kallað eftir gögnum og skýringum á verðþróuninni. ASÍ fylgist vel með verðlagi og þess vegna höfum við fengið til okkar Róbert Farestveit, sviðsstjóra hagfræði og greiningasviðs hjá ASÍ til að ræða við okkur um hækkanir á matvöru og þjónustu.
Viðkvæmum persónugögnum sem stolið var frá lögreglu og sérstökum saksóknara voru meðal annars notuð til að selja þjónustu fyrirtækisins PPP sem fjallað var um í Kveik í liðinni viku. Nýjar upplýsingar sem nánar verður fjallað um í Kastljósi í kvöld sýna umfang þeirra gagna sem var stolið. Helgi Seljan kemur til okkar í Síðdegisútvarpið en hann hefur sinnt þessari rannsókn fyrir Kveik og nú Kastljós og segir okkur aðeins betur frá því sem fjallað verður um í kvöld.
Í Reykjadal hafa verið starfræktar sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni í 62 ár. Bergljót Borg, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, sem á og rekur Reykjadal ætlar að segja okkur frá söfnun sem er í gangi fyrir viðgerð á sundlauginni í Reykjadal
Það er margt að skoða og margt að sjá fyrir ferðamenn sem koma til Reykjavíkur og uppbygging af öllu tagi er í fullum gangi. Inga Hlín Pálsdóttir er framkvæmdastjóri Visit Reykjavík og hefur lengi starfað í þessum bransa og hún ætlar að segja okkur frá því hvernig staðan er þegar kemur af afþreyingu og gistimöguleikum í Reykjavík. Hún kemur til okkar í þáttinn í dag.
Önnur æfingin hjá íslenska hópnum í Eurovision, sem haldið er í Basel í Sviss, var í St. Jakobshöllinni fyrr í dag og við ætlum að heyra í Rúnari Frey Gíslasyni framkvæmdastjóra Söngvakeppninnar á eftir og heyra hvernig VÆB-bræðurnir Hálfdán Helgi og Matthías Davíð Matthíassynir og þeirra fólk hafi staðið sig.
Auður E. Jóhannsdóttir, hjúkrunar- og áfallafræðingur, skrifaði grein á Vísi í gær um að hún sjálf beri ábyrgð á að viðhalda sínu D-vítamín gildum í blóði í jafnvægi. Ekki aðeins fyrir beinheilsu heldur líka fyrir ónæmiskerfið. Okkur lék forvitni á að vita meira af reynslu hennar og buðum henni til okkar í spjall í lok þáttar.