Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB og Steinunn Bragadóttir, hagfræðingur hjá ASÍ hafa reglulega skrifað greinar í fjölmiðla á kvennaárinu 2025 og í nýjustu grein þeirra, sem birtist á vísi.is undir fyrirsögninni Ólaunuð vinna kvenna, tala þær um könnun sem Varða, Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, gerði í sumar meðal félagsfólks stéttarfélaga innan ASÍ og BSRB. Þar voru kynntar niðurstöður um skiptingu ólaunaðrar vinnu á heimilum sambúðarfólks, bæði svokallaðrar annarrar vaktar og þriðju vaktar. Það sé áhyggjuefni að karlar taki hlutfallslega miklu styttra fæðingarorlof en konur, og að konur dragi oftar úr vinnu til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Sigríður og Steinunn komu í þáttinn í dag.
Sölufélag garðyrkjumanna hefur undanfarin ár valið ræktendur ársins innan sinna raða. Hjónin Inga Sigríður Snorradóttir og Óli Finnsson á garðyrkjustöðinni Heiðmörk í Laugarási hlutu þennan heiður árið 2023 og í ár fengu þau hvatningarverðlaun sölufélagsins. Fjölskyldan flutti árið 2021 úr Grafarvogi í Laugarás í Bláskógarbyggð eftir að hafa fest kaup á garðyrkjustöðinni Heiðmörk. Við slógum á þráðinn austur fyrir fjall og ræddum við hjónin í dag.
Er ekki allt í lagi heima hjá þér er heimildaleikhúsverk um fjórar manneskjur sem allar ólust upp hjá móður með alvarlegan geðsjúkdóm. Verkið verður flutt í útvarpinu á Rás 1 annan í jólum kl.17. Við fengum Evu Rún Snorradóttur, leikstjóra og handritshöfund og Ragnar Ísleif Bragason, einn fjögurra þáttakenda í verkinu, til að segja okkur betur frá verkinu.
Tónlist í þættinum í dag:
Af álfum / Friðrik Ómar og Margrét Eir (Karl Olgeirsson)
Undrastjarnan / Hljómar (lagahöfundur ókunnur, texti Rúnar Júlíusson)
Den store stjerna / Sissel Kyrkebö og Bergen Fílharmóníusveit (Svein Gundersen & Trygve Hoff)
It’s Beginning to Look a lot Like Christmas / Björgvin Halldórsson (Meredith Wilson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON