Hljómsveitin Eva var einu sinni efnileg framúrstefnuhljómsveit og sviðslistahópur en þarf nú að horfast í augu við raunveruleikann; andleg veikindi, dauðann, adhd greiningar, snemmbúið breytingaskeið og þá staðreynd að þær hafa ekki samið nýtt lag í fimm ár. Svona hljómar kynning á verkinu Kosmískt skítamix sem þær stöllur Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir, sem einmitt skipa Hljómsveitina Evu, munu frumsýna á föstudaginn. Í verkinu munu þær segja fólki frá því sem á daga þeirra hefur drifið í þessum grátbroslega en kosmíska tónleik. Vala og Sigríður komu í þáttinn í dag.
Við kláruðum svo í dag yfirferð okkar um sviðslistahúsin til að kynna okkur hvað verður á fjölum þeirra í vetur. Nú er komið að Íslenska dansflokknum. Lovísa Ósk Gunnarsdóttir er listdansstjóri þar og hún var með okkur í dag og sagði frá því hvað er á döfinni hjá ÍD þennan veturinn.
Svo var það lesandi vikunnar, sem í þetta sinn var Guðrún Steinþórsdóttir bókmenntafræðingur og aðjúnkt við Menntavísindasvið HÍ. Guðrún sagði okkur frá því hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Guðrún talaði um eftirafarandi bækur og höfunda:
Atburðurinn e. Annie Ernaux
Móðurást: Oddný og Móðurást: Draumþing e. Kristínu Ómarsdóttur
Gervigul e. Rebecca F. Kuang
Fyrir vísindin e. Önnu Rós Árnadóttur
Tove Janson, Astrid Lindgren, Guðrún Helgadóttir, Vigdís Grímsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Isabel Allende og Toni Morrison.
Tónlist í þættinum í dag:
Kiddi Kadilakk / Mannakorn (Magnús Eiríksson)
Ævilagið / Hljómsveitin Eva (Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir)
Good Vibrations / The Beach Boys (Brian Wilson & Mike Love)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR