Hollar skólamáltíðir fyrir loftslagið og líðan barna er yfirskrift málþings sem verður haldið þann 13. maí í samstarfi Menntavísindasviðs HÍ og Aldins, samtaka eldri borgara gegn loftslagsvá. Meginmarkmiðið er að varpa ljósi á tengsl hollra skólamáltíða, umhverfis og líðan barna í námi og starfi. Málþingið er öllum opið og séstakir gestir koma frá Finnlandi og Svíþjóð og lýsa reynslu sinni af fyrirkomulagi skólamáltíða . Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur kom í þáttinn og sagði frá.
Þörf fyrir samfélagsbreytingar 2025 er yfirskriftin á ráðstefnu og vinnustofum sem Geðhjálp stendur fyrir. Þar munu koma fram fyrirlesarar sem hafa beitt sér á alþjóðavettvangi fyrir breyttri nálgun í geðheilbrigðismálum, nálgun sem hefur skilað árangri. Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar kom til okkar í dag og sagði okkur meðal annars frá áfallameðvituðu fangelsiskerfi og fleiru sem rætt verður um á ráðstefnunni. Upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér: https://socialchange.is/
Við fengum svo póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni í dag og í korti dagsins talaði Magnús um Lundahlaupið, The Puffin Run eins og það heitir opinberlega, en það er nú að baki í Vestmannaeyjum og þótti takast einstaklega vel. Magnús segir frá því að hann missti gersamlega af öllu því tilstandi því hann var að fylgjast með úrslitaleiknum í snóker sem fór fram á sama tíma. Hann segir aðeins frá sögu þessa vinsæla leiks og ennfremur af helstu snókerstjörnu samtímans, Ronnie O'Sullivan sem Magnús segir að sé gallaður snillingur.
Tónlist í þættinum í dag:
Sjáumst aftur / Páll Óskar (Orlande de Lassus, texti Páll Óskar Hjálmtýsson)
Vegbúi / Una Torfa og Elín Hall (KK)
Stella í orlofi / Diddú (Valgeir Guðjónsson)
Froðan / Jón Jónsson og Ragnar Bjarnason (Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, texti Ásgeir Sæmundsson)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON