Mál málanna, gervigreindin, var til umfjöllunnar hjá okkur í dag. Hvernig getur gervigreindin nýst okkur í daglegu lífi og hvernig eigum við að spyrja? Það er nefnilega ekki sama hvernig við spyrjum gervigreindina spurninga og við eigum að fara varlega í að láta hana fá persónulegar upplýsingar. Það er ekki hægt að stóla 100% á svörin sem við fáum, því gervigreindin kann ekki að svara „Ég veit ekki“ og getur tekið uppá því að bulla eitthvað frekar. En hvernig er þá best að snúa sér í þessu? Pétur Már Sigurðsson, forritari og sérfræðingur í innleiðingu og þróun gervigreindarlausna spjallaði við okkur í dag.
Við spiluðum í síðustu viku jólalagið Sleðaferð í flutningi Skapta Ólafssonar en lagið heitir á frummálinu Sleigh Ride og er eitt frægasta jólalag allra tíma. Við fengum í kjölfarið ábendingu frá hlustanda um að höfundur lagsins, Leroy Anderson, ætti tengingu við Ísland. Það reyndist rétt, Jón Múli Árnason útvarps- og tónlistarmaður komst í kynni við Anderson á meðan sá síðarnefndi gegndi herþjónustu hér á landi. Jón Múli hafði meira að segja tilgátu um að Anderson hefði samið lagið á Íslandi á hernámsárunum. Við fundum viðtal í safni útvarpsins þar sem Hanna G. Sigurðardóttir fékk Jón Múla til að segja frá kynnum sínum við Anderson og hvort tilgátan reyndis rétt.
Lesandi vikunnar í Mannlega þættinum í þetta sinn var svo Unnur Steina Knarran Karls bókmenntafræðingur. Við fengum hán til að segja okkur frá því hvaða bækur hán hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hán í gegnum tíðina. Unnur talaði um eftirfarandi bækur og höfunda:
Dracula e. Bram Stoker
At the Edge of the Night e. Friedo Lampe
The Song of Achilles e. Madeline Miller
Stytturnar í hillunum e. Evu Rún Snorradóttur
Guðrún Helgadóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Lemony Snicket og Ocean Vong
Tónlist í þættinum í dag:
Þorláksmessukvöld / Ragga Gísla (Robert Wells, Mel Tormé, texti Þorsteinn Eggertsson)
Á jólunum er gleði og gaman / Eddukórinn (erlent lag, texti Friðrik G Þórleifsson) Jón Sigurðsson bassaleikari útsetti
Sleigh Ride / The Ronettes (Leroy Anderson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON