Við hugsum sjaldnast um lungun – nema þegar þau bregðast. En samt eru þau okkur bókstaflega lífsnauðsynleg, öndunartakturinn sem heldur okkur gangandi alla ævi. Í þessum þætti ætlum við að beina sjónum að þessari líffæravél sem við öndum í gegnum, frá fyrstu andardrætti til síðasta útöndunar. Ég fékk Ólaf Baldursson til mín, lungnalækni sem hefur fylgst með þróun læknisfræðinnar á þessu sviði og veit hversu miklar breytingar hafa orðið – og hvað framtíðin gæti boðið upp á. Við ræðum byggingu lungnanna, hlutverk þeirra, hvernig við höfum farið með þau í gegnum tíðina og hvað við getum gert til að vernda þau betur.
Meira um Ólaf Baldursson: Ólafur er lyflæknir og lungnalæknir, sem hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum, kennslu- og vísindastarfi auk lyfjaþróunar. Grunnvísindaverkefni sem hann hefur tekið þátt í hafa tvisvar leitt til þróunar lyfja. Hann hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala frá árinu 2009 en hefur verið í leyfi frá henni í þrjú ár. Á þeim tíma hefur hann starfað sem forstöðumaður lungna- og ofnæmislækninga á Karolinska háskólasjúkrahúsinu í Stokkhólmi og við verkefni á vegum heilbrigðisráðuneytisins hér heima, m.a. varðandi framtíðarhorfur mannafla í læknisþjónustu.