Seinni heimsstyrjöldin, þáttur 1: Aðdragandi og upphaf
Við byrjum nýja seríu af Þú veist betur á umræðuefni sem er erfitt að tækla í 1-2 þáttum, enda urðu þeir á endanum 5. Þetta er veisla fyrir öll okkar sem hafa áhuga á seinni heimstyrjöldinni, en líka bara þau sem vilja skilja betur heiminn sem við búum í, nútíminn er skiljanlegri ef við vitum hvaðan við komum.
Seinni heimsstyrjöldin byrjar ekki bara með innrás í Pólland. Hún á sér aðdraganda sem nær yfir efnahagskreppur, hugmyndafræði, nýlendustefnu og mannleg mistök. Við rennum yfir hvernig Hitler náði völdum í Þýskalandi, hvernig lýðræði breyttist í einræði á örfáum árum og hvernig þjóðarleiðtogar eins og Neville Chamberlain reyndu að halda frið með samningum sem stóðust ekki raunveruleikann.
Við skoðum líka hvað var að gerast annars staðar, sérstaklega í Asíu, þar sem Japan og Kína börðust og Chiang Kai-shek var maður ársins hjá Time áður en stríðið í Evrópu var jafnvel byrjað.