Vínill vikunnar

Lög frá liðnum árum - seinni hluti (1960)

Vínilplata vikunnar þessu sinni er safnplatan Lög frá liðnum árum sem gefin var út af Íslenskum tónum árið 1960 og inniheldur samtals 27 lög á tveimur vínilplötum. Þær innihalda létt lög og dægurlög sem höfðu komið út á 78 og 45 snúninga plötum hjá útgáfunni, auk laga sem ekki höfðu áður verið gefin út.

Í þessum þætti verður seinni plötunni af tveimur gerð skil.

Fyrsta lagið á A-hlið plötunnar er hinn áhrifamikli Söngur villiandarinnar eftir Jakob Hafstein sem hann flytur sjálfur, en lagið er sænskt þjóðlag. Tekið er fram á plötunni Carl Billich aðstoði við flutninginn. Litla flugan hans Sigfúsar Halldórssonar kemur næst í flutningi höfundar, vísurnar tvær um fluguna litlu eru eftir Sigurð Elíasson. Þriðja lagið er Hittumst heil eftir Ágúst Pétursson við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk. Tígulkvartettinn syngur og Tríó Jans Morávek aðstoðar. Fjórða lagið er Þú ert mér kær, erlent lag við texta Valgerðar Ólafsdóttur, Jóhann Möller syngur og kvartett Jans Morávek aðstoðar. Marz-bræður flytja síðan lagið Anna litla, erlent lag við íslenskan texta Theódórs Einarssonar. Sjötta lagið er Bergmál eftir Þórunni Franz og textinn eftir Jenna Jóns. Tónasystur syngja með tríói Jans Morávek. Sjöunda lagið er Lukta-Gvendur, erlent lag við texta Eiríks Karls Eiríkssonar. Sigrún Jónsdóttir og Alfreð Clausen syngja með KK sextett. Lokalagið er síðan Þórður sjóari, eftir Ágúst Pétursson við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk, Alfreð Clausen syngur með kór og hljómsveit Carls Billich.

Á B-hlið plötunnar eru sjö lög. Við byrjum á heyra Soffíu Karlsdóttur og Sigurð Ólafsson syngja lagið Ég býð þér upp í dans eftir Þórhall Sigurðsson með texta Örnólfs í Vík. Hljómsveit Jans Morávek leikur undir. Næst er ertu fjarri eða Danny Boy við íslenskan texta Friðjóns Þórðarsonar. Leikbræður syngja og Carl Billich er þeim til aðstoðar. Þriðja lagið er hið fræga Vertu ekki horfa svona alltaf á mig, sungið af hinum eina sanna Ragga Bjarna með hljómsveit Birgers Arudzen. Lagið er erlent en Jón Sigurðsson á textann eins og marga fleiri góða. Fjórða lagið heitir síðan samkvæmt því sem skráð er leiðrétt á umslagi plötunnar hér í safni Ríkisútvarpsins Næturgöltrið í skt. Eiríksgötunni, erlent lag og þýðandi textans tilgreindur Gestur. Jakob Hafstein og Ágúst Bjarnason flytja og Carl Billich er þeim til aðstoðar. Fimmta lagið er Meira fjör eftir Bjarna Böðvarsson, texti Ágúst Böðvarsson. Sigurður Ólafsson syngur með Harmonikkuhljómsveit Bjarna Böðvars. Sjötta lagið er Langt upp í litlum dal, erlent lag við texta Jóns Sigurðssonar. Óðinn Valdimarsson syngur með Atlantic kvartettinum. Lokalag plötunnar er Bel Ami erlent lag með texta Jóns Sigurðssonar. Helena Eyjólfsdóttir syngur með hljómsveit Kjells Karlsen.

Umsjón: Stefán Eiríksson.

Frumflutt

13. júní 2025

Aðgengilegt til

Rennur ekki út
Vínill vikunnar

Vínill vikunnar

Vínil plata úr safninu dregin fram og spiluð í heild.

Þættir

,