Harðstjórar eru persónur sem oft koma fyrir í óperum, persónur sem stundum eru byggðar á raunverulegum þjóðhöfðingjum úr mannkynssögunni. Oftast eru það bassa- eða barítónsöngvarar sem fara með hlutverk harðstjóra, þar sem djúpar raddir þykja hæfa þeim best. Í þættinum "Á tónsviðinu" verða fluttar aríur og dúettar harðstjóra sem koma fyrir í óperum eftir ýmsa höfunda. Meðal persónanna sem fjallað verður um eru Macbeth í samnefndri óperu eftir Giuseppe Verdi, Scarpia í óperunni "Toscu" eftir Giacomo Puccini og Boris Godunov í samnefndri óperu eftir Modest Mussorgskí. Í tónlistinni er lýst ýmsum hliðum á harðstjórunum: fyrstu skrefum þeirra í átt til harðstjórnar, sjálfsöryggi þeirra á hátindi valdsins, einmanaleikanum sem þeir geta ekki varist, og samviskubitinu sem liggur í leyni í sálarfylgsnum þeirra. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir og lesari er Kristján Guðjónsson.