ÍÞRÓTTIR FYRIR ALLA

Skyggnst bak við tjöldin í íþróttalíf Íslendinga

Íþróttaiðkun barna og unglinga er í miklum blóma. Sumir verða afreksmenn í íþróttum og við dáumst að þeim og sigrum þeirra heima og heiman. Hver er leiðin frá því að mæta á æfingar með vinunum sér til ánægju og dægrastyttingar til þess að verða framúrskarandi afreksfólk? Þarf öll íþróttaiðkun að leiða til afreka? Hvað ef fótbolti, handbolti eða körfubolti henta ekki börnunum? Þýðir það að þau hafi ekki áhuga á íþróttaiðkun eða getur verið að einhverjar aðrar íþróttagreinar henti þeim betur? Í þessari vönduðu og skemmtilegu þáttaröð er fjallað um íþróttaiðkun barna og unglinga á uppbyggilegan hátt sem og hið mikla og fjölbreytta úrval íþróttagreina sem þeim stendur til boða. Rætt er við krakka sem stunda æfingar og fyrirmyndir þeirra, sjálft afreksfólkið sem hefur náð svo mörgum af markmiðum sínum, um hvernig þetta hófst, fyrstu æfingarnar, fyrstu þjálfarana, fyrstu mótin og keppnirnar, mótbyrinn, meðvindinn, ósigrana og sigrana.