FYRST OG FREMST Í ÍSLENSKRI TÓNLIST

Tónlistarhátíðir og viðburðir

Rás 2 kappkostar að vera á staðnum á flestum þeim tónlistarhátíðum og viðburðum sem stór hluti landsmanna tekur þátt í eða verður var við. Þetta er ekki einungis gott útvarpsefni heldur ómetanleg heimild um lifandi íslenska tónlist.

 

Airwaves
Iceland Airwaves er stærsta tónlistarhátíð landsins en á henni koma fram hátt á þriðja hundrað listamanna ár hvert. Rás 2 hefur frá upphafi verið í góðu samstarfi við aðstandendur hátíðarinnar og sinnt henni eins vel og kostur er. Árlega eru teknir upp á fjórða tug tónleika hátíðarinnar, Rás 2 sendir að hluta til út frá Marina hóteli í bænum þar sem boðið er upp á off-venue dagskrá.

 

Músiktilraunir
Rás 2 hefur alltaf fylgst mjög náið með Músiktilraunum enda er þar að finna snillinga framtíðarinnar. Það er löngu orðin hefð að útvarpa lokakvöldinu sem er yfirleitt haldið síðasta laugardaginn í mars.

 

Aldrei fór ég suður
Þessi stórskemmtilega tónlistarhátíð byrjaði sem flipp feðganna Muga og Mugisons en hefur aldeilis vaxið fiskur um hrygg síðan og er nú orðin ein stærsta tónleikahelgi ársins. Rás 2 hefur undanfarin ár verið með lifandi útsendingu frá að minnsta kosti einu kvöldi hátíðarinnar og að undanförnu hefur RÚV líka streymt tónleikunum á neti og RÚV 2.

 

Mölin
Mölin er ein af þeim hátíðum sem nýlega bættust í sarp íslenskra tónlistarhátíða – og Rás 2 tók fljótlega við sér og á síðustu hátíð voru teknir upp tónleikar auk þess sem hátíðinni eru gerð góð skil í tónlistarþáttum.

 

Drangey
Þessi tónlistarhátíð sem haldin var á Sauðárkróki í fyrsta sinn síðasta ár er komin til að vera. Það eru þeir Bræðslubræður, Magni og Áskell Heiðar, sem standa að hátíðinni og ekki við öðru að búast en að þetta verði ein af stóru hátíðum íslensks tónlistarsumars.

 

All Tomorrow‘s Parties
Rás 2 hefur frá upphafi verið í samstarfi við íslensku útgáfu þessarar goðsagnakenndu tónlistarhátíðar sem haldin er víða um heim. Á síðasta ári valdi Rás 2 sérstaklega á eitt svið hátíðarinnar og auðvitað íslenskar hljómsveitir.

 

Bræðslan
Þessi tónlistarhátíð á sér tíu ára sögu og hefur frá upphafi boðið upp á ótrúlega flóru listamanna og hefur verið uppselt á hátíðina undanfarin ár. Rás 2 hefur í allnokkur ár flutt lifandi tónlist frá hátíðinni og kryddað hana með viðtölum við tónlistarmennina sem þar koma fram.

 

Verslunarmannahelgin
Um verslunarmannahelgina rýfur Rás 2 hefðbundna dagskrá og er á vaktinni alla helgina. Dagskráin er að mestu lögð undir hátíðir og viðburði víðs vegar um landið, brekkusöngur með Eyva á sunnudagskvöldi, tónleikar af Innipúkanum í Reykjavík, tónleikar frá einhverri útihátíðinni og svo framvegis.

 

Tónaflóð
Tónaflóð, stórtónleikar Rásar 2 á Menningarnótt er meðal stærstu tónlistarviðburðum ársins. Rás 2 býður höfuðborgarbúum upp á tónleika frá klukkan átta og fram að flugeldasýningu. Venjan er að flóra listamannanna á tónleikunum sé sem fjölbreyttust og markmiðið að öll fjölskyldan geti notið tónleikanna, á þeim finnur hver fjölskyldumeðlimur eitthvað við sitt hæfi.