RÚV mætir auknum kröfum um sjálfbærni með því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni með markvissum aðgerðum og leitast við að vera öðrum til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum.
Átak hefur verið gert í flokkun sorps, pappírsnotkun minnkuð og dregið úr matarsóun. Í byrjun árs 2022 var loftslagsstefna RÚV samþykkt og var það gert samkvæmt lögum um loftslagsmál. Stefnan er aðgengileg á vef RÚV og í henni eru meðal annars skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð. Tilgangurinn er að draga markvisst úr áhrifum losunar gróðurhúsalofttegunda af starfseminni og vera til fyrirmyndar með því að hafa bein og óbein áhrif á loftslagsskuldbindingar Íslands.
Frá 2021 hefur Ríkisútvarpið haldið grænt bókhald þar sem teknir eru saman þýðingarmestu umhverfisþættirnir í starfseminni. Niðurstöður bókhaldsins eru notaðar til að móta stefnu og aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum. Fyrir 1. apríl ár hvert er grænt bókhald fyrra árs tekið saman og því skilað í gagnagátt Umhverfisstofnunar. Niðurstöður græns bókhalds birtast einnig á vef Grænna skrefa ásamt niðurstöðum annarra ríkisstofnana. Á árinu
2024 lauk RÚV innleiðingu á 5. græna skrefi Umhverfisstofnunar Íslands.
Nákvæmlega er fylgst með kolefnisbókhaldi á eftirfarandi þáttum í starfsemi RÚV:
2024 | 2023 | |
Eldsneyti | 87,51 | 76,9 |
Rafmagn | 40,21 | 53,96 |
Heitt vatn | 53,44 | 66,02 |
Flug | 72,71 | 98,2 |
Úrgangur frá rekstri | 4,09 | 3,66 |
samtals | 257,96 | 298,74 |
Niðurstaðan er að í flokkunum eldsneyti og úrgangur er hækkun frá fyrra ári, en í flokkunum rafmagn, heitt vatn og flug er almennt lækkandi þróun sem rekja má til aðgerða til að draga úr kolefnislosun á þeim sviðum.
Stefnt er að því minnka losun gróðurhúsalofttegunda á hvert stöðugildi um 30% fyrir árið 2030 miðað við 2019. Árið 2030 má hún því ekki vera meiri en 200 tonn.
Hjá RÚV er í gildi samgöngustefna sem hefur það að markmiði að gera starfsfólki auðveldara að fara til og frá vinnu með því að sameinast í bíla eða nota almenningssamgöngur og aðra valmöguleika en að fara um á einkabíl. Samgöngustyrkur er veittur starfsfólki á grundvelli samgöngusamnings við hvern og einn.
Eldsneyti fyrirtækja
Rafmagn
Heitt vatn
Flug
*Mælieining í t CO2í
Kynjajafnrétti er hornsteinn í ytra og innra starfi RÚV. Unnið er að félagslegri sjálfbærni með ábyrgri umfjöllun og stefnu um fjölbreytileika, jafnrétti og þátttöku í miðlum og starfsumhverfinu.
RÚV starfar í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.
Jafnréttisáætlun RÚV er staðfest af Jafnréttisstofu til þriggja ára í senn og felur í sér markmið og aðgerðir í jafnréttisstarfi innan RÚV. Áætlunin miðar að því að jafna stöðu kynja en nær einnig yfir jafnrétti óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu í samræmi við lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Gildandi jafnréttisáætlun tilgreinir 23 aðgerðir sem unnið skal að á gildistíma áætlunarinnar, m.a. um starf jafnréttisnefndar. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með stöðu og þróun jafnréttismála hjá RÚV, framvindu aðgerða sem skilgreindar eru í jafnréttisáætlun, endurskoðun þeirra eftir því sem þörf krefur. Nefndin er skipuð starfsfólki víðs vegar að úr starfseminni og fundar reglulega ásamt því að miðla upplýsingum um störf sín til útvarpsstjóra og starfsfólks. Nefndin rýnir vel í niðurstöður árlegrar vinnustaðargreiningar m.t.t. viðhorfa kynja til ýmissa þátta í innra starfi. Þróuð hefur verið jafnréttis- og fjölbreytileikaskimun fyrir einstök verkefni og lögð hefur verið áhersla á að fræðsludagskrá endurspegli þessar áherslur.
RÚV hefur um árabil safnað gögnum um kynjahlutföll viðmælenda/gesta í útvarpi og sjónvarpi með það að markmiði að tryggja jafnræði þegar kemur að sýnileika í miðlum. Að auki nær viðmælendagreiningin einnig til búsetu og aldurs og upplýsingum er miðlað reglulega. Hugað er að jafnræði kynja þegar kemur að starfsfólki í fréttum og umsjón þátta í útvarpi og sjónvarpi.
RÚV hefur hlotið vottun á jafnlaunakerfi árlega síðan 2019 og unnið er jafnt og þétt að umbótum á kerfinu. Vottunin felur m.a. í sér skuldbindingu um reglubundnar launagreiningar þar sem kynbundin launamunur er greindur. Launaákvarðanir byggjast á málefnalegum forsendum og greiða skal sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Laun taka mið af eðli verkefna, kjarasamningum, kjara á markaði, ábyrgð, menntun, starfsreynslu, persónulegri hæfni og frammistöðu í starfi. Launastefnan tekur til allra starfa innan RÚV ohf. og RÚV Sölu ehf.
RÚV hefur sett starfskjarastefnu með það að markmiði að félagið sé samkeppnishæft um starfsfólk og stjórnendur. Ákvarðanir um laun skulu teknar í samræmi við samþykkt ferli um launaákvarðanir þar sem gætt er að jafnréttissjónarmiðum, ábyrgð og eðli verkefna, kjarasamningum, kjara á markaði, persónubundnum hæfniþáttum og frammistöðu í starfi.
Á RÚV er markvisst unnið að því að heilsa og vellíðan starfsfólks sé í forgrunni og tryggja skal starfsfólki öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi. Sett hefur verið velferðarstefna sem hefur fjóra meginþætti er snúa að hreyfingu og næringu, vellíðan og velferð, jákvæð tengsl og samskipti, lærdóm og þekkingu. Samið hefur verið við fjölmarga þjónustuaðila til að veita starfsfólki þjónustu og stuðning s.s. í formi sálfræðiaðstoðar, svefnráðgjafar, ADHD og einhverfuráðgjafar, sjúkraþjálfunar og næringarráðgjafar. Lögð er rík áhersla á að mæta starfsfólki sem er að ganga í gegnum erfiða lífsburði með stuðningi og sveigjanleika.
Í reglulegri vinnustaðargreiningu er mæld afstaða starfsfólks til fjölmargra þátta í vinnuumhverfinu, niðurstöður eru kynntar og unnið er að umbótum. Einnig er viðbragðáætlun vegna eineltis, kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldi (EKKO) vel kynnt og unnið eftir áætluninni í þeim málum sem upp koma á vinnustaðnum.
Stjórn RÚV leggur áherslu á að viðhalda góðum stjórnarháttum og að stjórnarhættir félagsins samræmist því regluverki sem um starfsemina gildir, alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum og bestu framkvæmd á sviði stjórnarhátta. Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur, meðal annars reglur um fundarsköp, reglur um hæfi stjórnarmanna, upplýsingagjöf útvarpsstjóra gagnvart stjórn og fleira. Reglurnar og fundargerðir stjórnar eru aðgengilegar almenningi á vef RÚV.
Í stjórn RÚV sitja níu manns, fjórir karlar og fimm konur. Einn áheyrnarfulltrúi starfsfólks situr stjórnarfundi. Stjórn hefur skipað endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd.
Í endurskoðunarnefnd sitja tveir stjórnarmenn og einn starfsmaður RÚV. Meginhlutverk og ábyrgð nefndarinnar er að hafa eftirlit með vinnuferlum við gerð reikningsskila og aðrar eftirlitsaðgerðir sbr. IX. kafla A. í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Endurskoðunarnefnd skal skila skýrslu um störf sín eigi sjaldnar en árlega.
Í starfskjaranefnd sitja þrír stjórnarmenn. Meginhlutverk og ábyrgð nefndarinnar er að yfirfara gildandi starfskjarastefnu og endurskoða hana.
Á árinu 2024 voru haldnir 14 stjórnarfundir og einn fundur í endurskoðunarnefnd. Meirihluti stjórnar og endurskoðunarnefndar mætti á alla fundi. Endurskoðunarnefnd fundar með endurskoðanda félagsins þegar tilefni er til auk þess sem endurskoðandi mætir á stjórnarfundi vegna árs- og árshlutauppgjörs. Félagið hefur ekki gert neina samninga við stjórnarmenn eða starfsfólk um greiðslur eða bætur ef þeir segja upp störfum eða þeim er sagt upp. Við starfsfólk hafa verið gerðir hefðbundnir ráðningarsamningar með viðeigandi uppsagnarfresti.
Til að tryggja að reikningsskil félagsins séu í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla hefur verið lögð áhersla á vel skilgreind ábyrgðarsvið og eðlilega aðgreiningu starfa, ásamt reglubundnum fundum og gagnsæi í starfseminni. Ferli mánaðarlegrar skýrslugjafar ásamt rýni fyrir einstakar deildir er mikilvægur þáttur í eftirliti með afkomu og öðrum lykilþáttum starfseminnar. Mánaðarleg uppgjör eru unnin og lögð fyrir stjórn félagsins ásamt upplýsingum um aðra lykilþætti starfseminnar svo sem umfang fjárfestinga, kaup á efni af sjálfstæðum framleiðendum, fjölda stöðugilda og umfang verktakakostnaðar. Til staðar eru ferlar til að tryggja eftirlit með tekjuskráningu, rekstrarkostnaði og fleiri liðum sem hafa áhrif á rekstur félagsins. Þá var ferli áætlanagerðar og eftirfylgni með aðkeyptu dagskrárefni breytt á árinu til að styrkja umgjörð sjóðstýringar félagsins. Með þjálfun starfsfólks og starfsreglum stefnir félagið að öguðu eftirliti þar sem allt starfsfók er meðvitað um hlutverk sitt og skyldur.