Hlutverk RÚV er að upplýsa og fræða, skerpa skilning og þátttöku í samfélaginu, auka ánægju og hreyfa við fólki á uppbyggilegan hátt.
RÚV vill endurspegla litríkt samfélag.
Gildi RÚV einkenna vinnubrögð, viðhorf og framkomu starfsfólks.
Fimm stefnuáherslur liggja til grundvallar stærri og smærri aðgerðum RÚV til ársloka 2026.
Áherslurnar sem settar eru fram í stefnunni taka mið af lykilbreytingum í ytra umhverfi, viðhorfi og hegðun neytenda, þróun fjölmiðlamarkaðar og stöðu almannaþjónustumiðla. Stefnuskjöl systurstöðva annars staðar á Norðurlöndunum og Bretlandseyjum voru rýnd auk þess sem vinnan við stefnumótun RÚV er byggð á umfangsmiklum rannsóknum frá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU.
Önnur lykilatriði í ytra umhverfi eru samfélagsleg ábyrgð, tengsl við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, auknar áherslur á sviði jafnréttismála og umhverfis- og loftslagsmála, áherslur á fjölbreytileika, jafnræði, aðgengi og sýnileika fjölbreyttra hópa. Horft var til aukinnar norrænnar samvinnu við framleiðslu á efni auk þess sem stefnumótun og áherslur EBU á mörgum sviðum höfðu áhrif á að horft er á aukið virði almannaþjónustumiðlanna. Horft var til nauðsynjar þess að auka meðvitund um falsfréttir og leiðir til að sporna gegn þeim og upplýsingaóreiðu almennt, meðal annars með áherslu á miðla- og upplýsingalæsi.
Staða RÚV, hlutverk og áskoranir voru bornar saman við stöðu annarra almannaþjónustumiðla og þær leiðir sem þeir hafa valið og samhljómurinn er mikill. RÚV sinnir mikilvægri þjónustu í íslensku samfélagi sem er að miklu leyti sambærileg við þjónustu erlendra almannaþjónustumiðla.
FJÖLBREYTILEIKI, JAFNRÆÐI OG ÞÁTTTAKA
RÚV ber að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins í dagskrá og allri starfsemi. Kynjajafnrétti er hornsteinninn í ytra og innra starfi og gætt er að jafnræði fjölbreyttra hópa og einstaklinga. Aðgengi allra að þjónustu RÚV skal vera tryggt og áhersla lögð á þjónustu við ólíka einstaklinga.
RÚV gegnir mikilvægu hlutverki við að byggja upp sjálfbært samfélag í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það felur í sér skuldbindingu um að styrkja hringrásarhagkerfið, skapa virði og efla þá þætti í stefnumótun, aðgerðum og ákvarðanatöku er snúa að umhverfis- og loftslagsmálum, félagslegri sjálfbærni og ábyrgum stjórnunarháttum.
Stjórnskipulag RÚV er í stöðugri þróun. Breytingar eru gerðar til að styrkja dagskrárþróun, framleiðslu og miðlun til stafrænnar framtíðar.
Markvisst er unnið að því að setja heilsu og velferð starfsfólks í forgrunn. Velferðaráherslur eru í fjórum meginþáttum: hreyfing og næring; vellíðan; jákvæð tengsl; og aukin þekking. Á árinu var öllu starfsfólki boðið upp á heilsufarsmælingar og ýmsa velferðartengda ráðgjöf s.s. sálfræði-, næringar- og svefnráðgjöf og ráðgjöf til að takast á við og fyrirbyggja langvarandi streitu og álagseinkenni.
Start-vika að hausti var helguð heilsu og boðið var upp á fræðsluerindi til að styrkja heilsuvitund og sérstakur heilsumatseðill var í mötuneytinu þá viku. Áfram er stutt við starfsþróun, m.a. með tækifærum í gegnum EBU-samstarf.
Starfsfólk RÚV á kost á að fá íþróttastyrk og það er hvatt til vistvænna samgangna með tilboði um samgöngusamning. Starfsfólki stendur til boða afnot af rafmagnshjóli endurgjaldslaust nokkra daga í einu til að hvetja til vistvænni samgangna til og frá vinnu.
Hugað var að hreyfingartengdum heilsuviðburðum með þátttöku í Lífshlaupinu, Hjólað í vinnuna og átakinu Syndum. Þátttakan eykst ár frá ári enda er starfsfólk hvatt til að vera með og eru veitt hvatningarverðlaun.
Félagslífið var fjörugt á árinu. Starfsmannasamtök RÚV stóðu fyrir glæsilegri árshátíð í Hvalasafninu á fyrri huta ársins auk þess sem haldnir voru ýmsir viðburðir svo sem spurningakeppni, haust- og aðventugleði.
Áralöng hefð er fyrir jólaballi í stúdíói A, sem var vel sótt fjölskylduskemmtun. Fjölskyldudagur RÚVara hefur fest sig í sessi í upphafi sumars. Þá gefst starfsfólki kostur að bjóða fjölskyldum sínum í Efstaleiti í grill og gaman. Stúdíóin eru opnuð fyrir gestum og boðið upp á söng- og leikatriði úr smiðju RÚV. Golfklúbbur RÚV var einnig virkur og vel sótt golfmót voru í sumar.
Allt starfsfólk styður við mikilvægt hlutverk RÚV sem almannaþjónustumiðils sem rýnir samfélagið, segir mikilvægar sögur og þróar nýjar leiðir til miðlunar.
Lögð er áhersla á að byggja upp hæfni og styrkja starfsfólk í fjölbreyttum hlutverkum innan RÚV. Starfsmannasamtöl eru notuð fyrir endurgjöf og sem vettvangur til að ræða starfsþróun. Stjórnendur hafa fengið reglulega þjálfun vegna starfsmannasamtala og endurgjafar.
Fjölmargir fræðslufundir voru haldnir á árinu og jafnréttismál setja svip á fræðsludagskrána. Allt árið var starfsfólki af erlendum uppruna boðið upp á einkakennslu í íslensku á vinnutíma sem einn af málfarsráðgjöfum á RÚV hefur á hendi.
Lagt var kapp á að bjóða upp á sem flest fræðsluerindi á fjarfundum. Lögð var áhersla á að vinna úr ábendingum starfsfólks um fræðslu til efla fagþekkingu, t.d. á einstökum kerfum og forritum. Upplýsingaöryggisnámskeið voru fyrirferðarmikil á árinu í tengslum við upplýsingaöryggisvottun sem RÚV vinnur að.
Haldið var áfram með þróun rafræns fræðslukerfis þar sem starfsfólki gefst kostur á að sækja fræðsluefni þegar því hentar best. Í boði eru fjölmörg stutt og hnitmiðuð námskeið. Kerfið er mikilvæg upplýsingaveita til starfsfólks um ýmis mannauðstengd mál og gegnir þýðingarmiklu hlutverki í upplýsingum til nýrra starfsmanna.
Safn Ríkisútvarpsins varðveitir sjónvarps- og útvarpsefni frá upphafi útsendinga árið 1930 og í gagnagrunni RÚV safns er ríflega ein milljón færslna. Safnið er opið almenningi í Efstaleiti. Safnefni er eftirsóknarvert í ýmsa dagskrárgerð, bæði innanlands og fyrir sjálfstæða framleiðendur langt utan landsteinana. Á árinu var gestaaðstaða í safni RÚV endurbætt og þjónusta í móttöku aukin með ráðningu í hlutastarf í afgreiðslu, tæplega 350 heimsóknir í safn RÚV í Efstaleiti voru skráðar á árinu. Starfsmenn safnsins stóðu fyrir reglulegum námskeiðum hjá dagskrárgerðarfólki um leit og notkun efnis úr gagnagrunni RÚV.
Sem fyrr var áhersla á skráningu og stafræna yfirfærslu á eldri segulböndum, bæði tónlist og dagskrárefni. Alls 12.000 segulbönd úr safni útvarpsins voru yfirfærð á stafrænt form hjá Memnon í Belgíu og send aftur til landsins í hita- og rakastýrðum gámi. Gengið var frá böndunum í hillur og hljóðskrárnar eru nú aðgengilegar í gagnagrunni RÚV safns. Einnig var átak í stafrænni yfirfærslu á dagskrárefni útvarps af geisladiskum og var því verkefni lokið á árinu.
Áfram var unnið í yfirfærslu á filmusafninu með samstarfssamningi við Kvikmyndasafnið. Gengið var frá öllu gömlu hráefni á filmum frá RÚV og það skráð í Kvikmyndasafnið. Með samningi við Myndbandavinnsluna var lokið við stafræna yfirfærslu á rauntímadagskrá sjónvarpsins árin 2005 til 2015. Fólk í samfélagsþjónustu vann við skönnun og yfirfærslu á fréttatímum af geisladiskum.
Innslög með völdum brotum úr safninu voru hálfsmánaðarlega á dagskrá í Samfélaginu á Rás 1 og efni úr safni RÚV birtist reglulega á TikTok á vegum fréttastofu.
RÚV hefur ríkar skyldur við íslenskt mál og áhersla er lögð á vandað mál í öllum miðlum. Málfarsráðgjafar lesa yfir, veita ráðgjöf og stuðla að bættri íslenskufærni starfsfólks, koma með ábendingar og halda fundi um málfar. Umfang yfirlestrar eykst ár frá ári. Málfarsráðunautur og málfarsráðgjafar sinna upplýsingagjöf og fræðslu um íslensku í miðlum RÚV, þar á meðal Samfélaginu á Rás 1 og þættinum Orð af orði sem hefur verið vikulega á Rás 1 frá 2013.
RÚV tekur þátt í máltækniáætlun stjórnvalda. Þá á RÚV fulltrúa í Íslenskri málnefnd og Málræktarsjóði.
Textun í beinni sjónvarpsútsendingu er mikilvægt aðgengismál og í tíðum aukafréttatímum vegna eldgosa var notuð sjálfvirk rauntímatextun. Einnig var byrjað að senda út sjálfvirkan texta með Silfrinu. Þá voru fleiri menningarviðurðir en áður með sjálfvirkri textun. Þróun sjálfvirkrar rauntímatextunar heldur áfram og er stefnt að því að hafa hana aðgengilega með fleiri útsendingum á næstunni.
Á RÚV.is er hugað að aðgengi fyrir blint og sjónskert fólk. Á síðunni RÚV.is/audskilid er miðlað fréttum á auðskildu máli sem hentar fólki með þroskahömlun og nýtist jafnframt fleirum. Á árinu var byrjað að nota gervigreind við ritun frétta á auðskildu máli. Það gengur ágætlega og verður þróað áfram til að fréttirnar þjóni tilgangi sínum enn betur.
Í sjónvarpi og spilara er hægt að fá íslenskan skjátexta með nær öllu íslensku sjónvarpsefni. Kvöldfréttir og íþróttir í sjónvarpi og meiri háttar menningarviðburðir eru með texta í beinni útsendingu. Kvöldfréttir og Krakkafréttir voru áfram táknmálstúlkaðar á RÚV 2 eða RÚV.is. Allir aukafréttatímar vegna náttúruvár voru einnig táknmálstúlkaðir.
Í samstarfi við Félag heyrnarlausra voru lögin í úrslitaþætti Söngvakeppninnar 2024 flutt á táknmáli á RÚV 2 af döff flytjendum. Auk þess var allt tal í þættinum túlkað á táknmál. Úrslitaþáttur Eurovision var enn fremur með táknmálstúlkun á RÚV 2.
RÚV veitir íbúum sem hafa ekki íslensku að móðurmáli þjónustu á ensku og pólsku. Fréttastofa miðlar fréttum á ensku og pólsku og heldur úti hlaðvarpsþáttunum The Week in Iceland og Wyspa. Vinsælar íslenskar þáttaraðir eru aðgengilegar með enskum texta á RÚV 2 og í spilara. Talsettar fjölskyldumyndir sem sýndar eru á RÚV eru oft sýndar á sama tíma á frummálinu með íslenskum texta.
Meðalfjöldi stöðugilda
Meðalaldur starfsfólks
Meðalstarfsaldur starfsfólks
Hlutfall kvenna í hópi starfsmanna
Hjá RÚV starfar kraftmikill og fjölbreyttur hópur fólks sem vinnur verk sín af lífi og sál og er stolt af starfi sínu. Það er stefna RÚV að skapa sveigjanlegt starfsumhverfi sem laðar að hæfasta starfsfólkið á hverju sviði. Velferð, vellíðan og öryggi starfsfólks er í forgrunni á vinnustaðnum. RÚV hefur staðist úttektir jafnlaunavottunar síðan árið 2019.
Árið 2024 störfuðu 293 starfsmenn að meðaltali hjá RÚV. Starfsmannavelta var 8,5% (án þeirra sem hættu vegna eftirlauna).
Lögð er áhersla á að taka vel á móti nýju starfsfólki og könnuð er líðan og aðlögun þess í nýliðasamtölum. Starfað er eftir stefnu um að auka fjölbreytileika í starfshópnum og jafna kynja- og aldurshlutföll. Í hópi nýliða blandast reynt eldra fólk við yngra starfsfólk. Aldursdreifing starfsfólks er nokkuð jöfn og meðalaldurinn er um 45 ár.
Mannauðsteymi starfar í samræmi við stefnu RÚV um að byggja upp og viðhalda góðu starfsumhverfi og vinnustaðarmenningu í því öfluga þekkingar- og nýsköpunarsamfélagi sem RÚV er. Það er stefna teymisins að starfa í þágu velferðar og árangurs á vinnustaðnum og leggja áherslu á góð samskipti, samstarf og gæði. Samtöl við starfsfólk, s.s. nýliða- og starfslokasamtöl, eru nýtt til umbóta allt árið. Færri störf voru auglýst árið 2024 en fyrri ár en jafnan er mikill áhugi á störfum hjá RÚV. Um 630 umsóknir bárust um auglýst störf.
Viðhorf starfsfólks til margra þátta í vinnuumhverfinu voru greind í viðhorfskönnun í lok árs. Töluverður árangur hefur náðst milli ára á síðustu árum í ýmsum mikilvægum þáttum, svo sem í viðhorfi starfsfólks til stjórnunar og starfsþróunar. Starfsánægja og vellíðan í starfi mælist áfram sem mikill styrkleiki í starfseminni, einnig stolt af starfinu sem er einn af mikilvægustu styrkleikaþáttunum. Sem fyrr verður unnið að úrbótaverkefnum í framhaldi af niðurstöðunum kannana. Helstu umbótaþættir snúa að álagstengdum þáttum, samstarfi á milli sviða og eininga innan RÚV og umbótum í starfsaðstöðu.
Heilsuvísitala starfsfólks
Frumkvæði, umboð og verkefni
Starfsánægja
Skuldbinding og hollusta
*Einkunn á bilinu 0-5 í viðhorfskönnun starfsmanna