Miðlar 2024
Fylgja fréttastofu á TikTok
Fylgja RÚV á Facebook
Fréttir birtar á ruv.is
Fréttavaktir á ruv.is
Kosningar voru fyrirferðarmiklar á árinu og fjölmargar nýjungar litu dagsins ljós í tengslum við þær. Ein sú helsta var kosningapróf RÚV sem var þróað í samstarfi við sænska ríkissjónvarpið SVT. Kosningaprófið er þjónusta sem getur hjálpað kjósendum að finna þá flokka og frambjóðendur sem standa þeim næst í skoðunum um helstu kosningamál. Um 100.000 notendur heimsóttu kosningaprófsvefinn sem fékk góða umfjöllun og fékk um 2,4 milljónir flettinga á þeim tæpu tveimur vikum sem hann var í loftinu í aðdraganda kosninga. Kosningalausnir RÚV voru tilnefndar til UT-verðlauna Skýs í flokknum besta stafræna opinbera þjónustan árið 2024.
Tekin var í notkun innskráning í vefspilara RÚV sem veitir Íslendingum erlendis aðgang að réttindavörðu efni. Til þessa hafa um 29 þúsund nýtt sér þessa þjónustu sem gerir notendum kleift að fylgjast með viðburðum eins og Evrópumótinu í knattspyrnu og vinsælu dagskrárefni eins og Vigdísi.
Á vef RÚV er hægt að lesa fréttir á auðskildu máli (ruv.is/audskilid). Fréttakerfi RÚV var tengt við gervigreindartól frá Miðeind og með aðstoð gervigreindar er hægt að birta fleiri fréttir á auðskildu máli. Með þessu er aðgengi að fréttum stóraukið fyrir þá sem vilja fréttir á einföldu formi. Þjónustan er ætluð fólki með þroskahömlun en nýtist einnig lesblindu fólki og kemur sér vel fyrir byrjendur og fólk sem er skammt á veg komið í íslenskunámi.
RÚV Orð (ord.ruv.is) leit dagsins ljós á árinu en það er nýr vefur fyrir sjálfsnám í íslensku með notkun sjónvarpsefnis frá RÚV. Lausnin er afrakstur samstarfs við Språkkraft, óhagnaðardrifið sænskt félag sem hefur sérhæft sig í hönnun máltæknilausna. Vefurinn bætir aðgengi allra aldurshópa að fjölbreyttu efni til að læra íslensku.
Sjálfvirk textun með beinum útsendingum hófst á árinu á völdum dagskrárliðum eins og Silfrinu. Hún var þegar komin á aukafréttatíma og kosningaumfjöllun. Með þessu er aðgengi að íslensku efni fyrir alla landsmenn aukið. Verkefnið fól í sér samþættingu sjálfvirkrar textunar frá máltæknifyrirtækinu Tiro við innri kerfi RÚV. Sjálfvirk textun verður sett á fleiri dagskrárliði til að auka þjónustu við notendur.
Gefinn var út sérstakur spilari MenntaRÚV (ruv.is/menntaruv) í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Í spilara MenntaRÚV er myndefni og útvarpsefni fyrir öll skólastig í samráði við ritstjórn MenntaRÚV.
Innri vefur RÚV birtir nú mælaborð sem sýnir samsetningu viðmælenda út frá kyni, aldri og búsetu, bæði fyrir miðla og tiltekna sjónvarps- og útvarpsþætti. RÚV leggur mikla áherslu á að mæla og greina gögn um viðmælendur til að tryggja sem fjölbreyttasta samsetningu þeirra.
RÚV hélt áfram að vaxa á samfélagsmiðlum árið 2024. Efni frá RÚV náði til yngri hóps á TikTok og menningar- og dægurefni fékk góða dreifingu á Instagram. Fylgjendum heldur áfram að fjölga á öllum miðlum.
Fylgjendur RÚV á Facebook eru 68 þúsund. Þeim hefur fjölgað mikið undanfarin ár, voru um 25 þúsund árið 2019 þegar RÚV hóf að gera breytingar á miðlun efnis á samfélagsmiðlum.
Síðustu þrjá mánuði ársins var áhorf á efni RÚV Facebook 13,8 milljónir og 9,5 milljónir á efni á síðunum RÚV – fréttir.
RÚV heldur áfram að vaxa jafnt og þétt á Instagram. Dreifing efnis á miðlinum jókst um 20% frá fyrra ári. Instagram-síða fréttastofunnar nýtur einnig vinsælda með um 55 þúsund fylgjendur og síðustu fjóra mánuði ársins var áhorfið um 5,8 milljónir.
RÚV deildi meira efni á Tiktok á árinu með því að birta þar stutt brot úr sjónvarpsefni og íþróttum. Við það jókst notkun á Tiktok um 130% og um 60% fleiri settu læk á efni frá RÚV en 2023.
RÚV er vinsælast í aldurshópnum 18-24 ára á Tiktok. Þetta eru 41% fylgjenda og rúmlega 70% þeirra sem læka, deila og setja athugasemd við efni RÚV. Um 105 þúsund fylgja fréttastofunni á TikTok.
Þjónusta RÚV á vefnum rúv.is verður mikilvægari með hverju árinu sem líður með breyttri neyslu fólks á fjölmiðlum, fréttum og annarri afþreyingu.
Áhersla er lögð á að allt efni sem RÚV framleiðir og birtir sé aðgengilegt á vefnum. Það á jafnt við um það sem svífur á öldum ljósvakans í útvarpi og sjónvarpi og efni sem er framleitt fyrir nýja miðla hvort heldur er í hlaðvarpi eða á samfélagsmiðlum.
Fréttir eru helsta aðdráttaraflið á rúv.is. Öll umferðartölfræði sýnir að fréttir eru mikilvægasta þjónusta RÚV í huga almennings. Fréttir eru í öndvegi á forsíðu rúv.is, jafnt af innlendum sem erlendum vettvangi, menningu, dægurmálum og íþróttum.
Spilari RÚV veitir aðgang að einu stærsta safni þjóðfélags- og menningarumfjöllunar á Íslandi í hljóði og mynd. Þar er eitthvað fyrir fólk á öllum aldri. RÚV heldur úti spilaravef með barnaefni og öðrum fyrir ungmenni.
Segja má að eldgos, stríð, kosningar og róstusamir tímar í stjórnmálum hér heima og á alþjóðavettvangi hafi sett svip sinn á árið 2024. Vefur RÚV hefur sannað gildi sitt þegar stórtíðindi berast og á árinu voru birtar yfir 22 þúsund fréttir og 264 fréttavaktir.
Áhersla er lögð á að mæla notkun vefsins með persónuvernd notenda að leiðarljósi. Mælingar á notkun eru lagðar til grundvallar þegar vefþróun er forgangsraðað. Gögnin eru notuð að bæta þjónustu og halda í við sífellt hraðari breytingar á notendamynstrinu. Á árinu 2024 voru gerðar breytingar í takt við það. Til dæmis voru tekini fyrstu skrefin í notkun gervigreindar.
Vefur MenntaRÚV var uppfærður og opnaður að nýju. Þar er efni sem er ætlað börnum og ungmennum frá sex ára aldri. Efninu er skipt eftir skólastigum frá yngsta stigi grunnskóla til framhaldsskóla og það er einkum fræðsluefni af ýmsu tagi sem Ríkisútvarpið og íslenskir kvikmyndaframleiðendur hafa gert.
MenntaRÚV á að vera miðstöð fyrir fræðslu- og kennsluefni á íslensku eða með íslenskum texta, sérstaklega hugsað til að mæta þörfum nemenda og kennara. MenntaRÚV er samstarfsverkefni RÚV og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og í ritstjórn eru fulltrúar beggja aðila. Markmiðið er að MenntaRÚV auki og auðveldi aðgang kennara og nemenda að stuðningsefni við kennslu í öllum námsgreinum.
MenntaRÚV er enn í mótun og efnisframboð verður aukið jafnt og þétt. Efni á MenntaRÚV er opið öllum en stefnt er að því að setja einnig upp aðgangsstýrt svæði fyrir höfundavarið efni sem verður aðgengilegt skólum landsins.