Framleiðsla RÚV 

Framleiðsla RÚV árið 2024 einkenndist af fjölbreytileika efnis sem ýmist var framleitt innanhúss eða keypt af sjálfstæðum framleiðendum. Fréttatengt efni, menningar- og mannlífsefni, Söngvakeppni, viðburðir og tónlist, íslenskar þáttaraðir, íslenskt leikið efni og heimildarmyndir eru það sem hæst bar og hér á eftir fer yfirferð um sumt af því sem sýnt var.

Fréttatengt efni

Ákveðið var að flytja Kastljósið yfir á fréttastofuna á árinu og þar með styrkja tengsl fréttastofu og Kastljóss. Ritstjóri var áfram Baldvin Þór Bergsson og með honum voru Guðrún Sóley Gestsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson, Viktoría Hermannsdóttir og Óðinn Svan Óðinsson. Menning, málefni líðandi stundar og klippt innslög voru með hefðbundnu sniði.

Rannsóknarblaðamennska Kveiks hélt áfram að vanda undir ritstjórn Ingólfs Bjarna Sigfússonar. Mörg áhugaverð mál litu þar dagsins ljós eftir yfirlegu fréttamanna.

Silfrið hélt áfram á mánudagskvöldum að loknum tíufréttum, en eftir að Bjarni Benediktsson sleit ríkisstjórn í lok október var tekin ákvörðun um að setja Silfrið á kjörtíma á mánudagskvöldum og var það svo fram yfir kosningar í lok nóvember. Valgeir Örn Ragnarsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Bergsteinn Sigurðsson sáu um Silfrið.

Nýr umræðuþáttur RÚV, Torgið í umsjón Sigríðar Halldórsdóttur og Baldvins Þórs Bergssonar, sótti í sig veðrið á árinu 2024, þar voru margvísleg málefni rædd og áhersla lögð á að fá breiðan aldurshóp til þess að tjá sig um hin ýmsu mál sem rædd eru á kaffistofum landsins.

Menning og mannlíf

Landinn er einn af okkar kjölfestuþáttum þar sem Gísli Einarsson og fleiri góðir umsjónarmenn heimsækja fólk sem fæst við áhugaverða hluti. Landinn er einn vinsælasti dagskrárliður vikunnar og hélt hann sínum sessi þetta árið sem endranær. Umsjónarmenn ásamt Gísla voru Edda Sif Pálsdóttir, Hafsteinn Vilhelmsson, Elsa María Guðlaugs-Drífudóttir og Þórdís Claessen.

Vikan með Gísla Marteini í beinni útsendingu úr sjónvarpssal er orðin fastur liður á föstudagskvöldum. Þættirnir hafa sótt í sig veðrið í áhorfi á árinu en þar fara gestir yfir fréttir vikunnar ásamt Gísla Marteini sjálfum. Nýir meðlimir í ritstjórn þetta árið voru þær Steiney Skúladóttir og Vigdís Hafliðadóttir, og að vanda var frumflutt ný íslensk tónlist í nær hverjum þætti.

Kilja Egils Helgasonar fór yfir bókaflóð landsmanna og í Okkar á milli á vormisseri ræddi Sigurlaug Margrét Jónasdóttir hjartans mál með ýmsum viðmælendum.

Í janúar fór í loftið nýr þáttur fyrir ungt fólk sem bar heitið Hvað er í gangi? Þar heimsóttu Daníel Óskar Jóhannesson og Katla Vigdís Vernharðsdóttir ungt fólk, fóru út á lífið og krufðu ýmis mál.

Söngvakeppnin 

Í lok janúar fór af stað kynning á lögunum 10 sem tóku þátt í söngvakeppninni. Undankvöldin tvö voru haldin þann 17. og 25. febrúar og fór lokakeppnin fram þann 2. mars.  Tvö lög urðu efst og varð einvígið á milli Heru Bjarkar og Bazar Muhrat. Eins og fyrri ár fór fram lokaeinvígi á milli þeirra sem fór á þá leið að Hera Björk sigraði keppnina. Framlag Íslands til Eurovision varð því lagið Scared of heights og fór Hera ásamt sínu fylgdarliði til Malmö í Svíþjóð þar sem keppnin var haldin árið 2024.  Kynnar á söngvakeppninni voru Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Unnsteinn Manúel og útvarpsmaðurinn og tónlistarstjóri Rásar 2, Sigurður Þorri Gunnarsson.

Eins og áður var talið niður í söngvakeppnina en þrír þættir af þáttunum Alla leið, þar sem Eva Ruza ásamt góðum gestum skoðaði framlög annarra landa, voru sýndir í aðdraganda Eurovision. Kynnir á Eurovision í Malmö var Gunna Dís og henni til aðstoðar var Gunnar Birgisson sem fenginn var að láni frá íþróttadeildinni. Tveir þættir af Póstkortum frá Malmö voru sýndir í aðdraganda undanúrslita Eurovision. Hera keppti fyrra undanúrslitakvöldið en komst ekki áfram í úrslit.

Jóladagskrá 

Jóladagskráin árið 2024 var fjölbreytt með tilheyrandi jólatónleikum og fleiru. Julevenner-tónleikarnir voru haldnir og Jólastjarnan var valin sem síðar kom fram á Jólagestum Björgvins. Auk þess var helgihaldi gerð skil með aftansöng jóla og friðarstund frá Fríkirkjunni. Fréttaannálar, íþróttaannálar og menningarannálar voru sýndir í lok árs og árinu lauk með Áramótaskaupi 2024, að þessu sinni í leikstjórn Maríu Reyndal.

Íslenskar þáttaraðir  

Fjölbreytt dagskrá innlendra þáttaraða var í boði árið 2024 og þar voru jafnt þættir sem keyptir voru af sjálfstæðum framleiðendum sem og þættir sem framleiddir voru innanhúss. Í janúar fóru af stað þættirnir Fangar Breta en í seinni heimsstyrjöld handtóku Bretar tæplega fimmtíu Íslendinga og fluttu þá til Englands. Þar sátu þeir í fangelsi árum saman án dóms og laga. Þáttaröðin var framleidd af Republik.

Í þáttunum Fyrir alla muni skoðuðu Sigurður Helgi Pálmason og Viktoría Hermannsdóttir muni sem tengdust sögu þjóðar. Þáttaröðin var framleidd af Republik.

Skemmtilegt samstarf við Kvikmyndasafn Íslands færði áhorfendum RÚV Perlur Kvikmyndasafnsins þar sem rýnt var í fjársjóð kvikmynda sem sýna íslenskan veruleika snemma á síðustu öld. Egill Helgason og Gunnar Tómas Kristófersson sýndu þar og ræddu efni sem jafnvel enginn hefur séð og um dagskrárgerð sá Ragnheiður Thorsteinsson.

Æskuslóðir, þættir í umsjón Viktoríu Hermannsdóttur og framleiðslufyrirtækisins Peru voru sýndir á árinu. Viktoría heimsótti æskuslóðir nokkurra þekktra Íslendinga og rifjaði upp æsku þeirra.

Á gamans aldri í umsjón Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur voru framleiddir af Elínu Sveinsdóttur. Það eru viðtalsþættir þar sem skyggnst er inn í líf fólks sem nýtur eftirlaunaáranna á aðdáunarverðan og jákvæðan hátt.

Þættirnir Endurtekið í umsjón Sigríðar Halldórsdóttur og Freys Eyjólfssonar sýndu hvernig gamalt drasl eins verður gullmoli annars. Endurtekið fjallaði á skemmtilegan hátt um hringrásarhagkerfið, hvernig endurnýta má alls kyns efni og gefa því nýtt líf.

Halla Ólafsdóttir færði okkur þáttaröðina Vegur að heiman þar sem hún hitti alls kyns fólk sem flytur landsteina og heimshorna á milli í ýmsum tilgangi, og velti fyrir sér hvað er það sem fólk kallar „heima“.

Fjórtánda þáttaröð hinna margverðlaunuðu þátta Með okkar augum var á sínum stað í haustdagskrá RÚV. Stjórnendur þáttanna héldu áfram að koma áhorfendum á óvart með nýstárlegri nálgun á lífið og tilveruna.

Spurningakeppnir

Spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur fór af stað í vefútgáfu og fór í beinar útsendingar á aðalrás að lokinni undankeppni. Að þessu sinni var stjórnandinn Kristinn Óli Sigrúnarson Haraldsson (Króli) og spurningahöfundar og dómarar voru Helga Margrét Höskuldsdóttir, Sigurlaugur Ingólfsson og Vilhjálmur Bragason. Eftir harða keppni á milli MH og MR bar MH sigur úr býtum.

Kappsmál hefur stimplað sig hressilega inn í spurningakeppnisflóruna og fyrir nokkru orðinn einn vinsælasti skemmtiþátturinn á RÚV. Þar leika gestir sér að öllum fínni blæbrigðum íslenskunnar. Sjötta þáttaröðin hóf göngu sína haustið 2024 og að þessu sinni kom nýr kynnir á sviðið í stað Bjargar Magnúsdóttur, en þetta árið var það Vigdís Hafliðadóttir sem stýrði þættinum ásamt Braga Valdimar Skúlasyni.

Splunkunýr spurningaþáttur fór í loftið í nýju sýndarveruleikastúdíói RÚV. Er þetta frétt er fréttatengdur skemmtiþáttur þar sem keppendur spreyta sig á misalvarlegum spurningum sem sóttar eru í glóðvolgar fréttir, nýjar og gamlar í bland. Stjórnandi og spyrill þennan fyrsta vetur var Kristjana Arnardóttir og henni til halds og trausts var Birta Björnsdóttir.

Hraðfréttamennirnir Benedikt og Fannar mættu til leiks í aðdraganda forsetakosninga og tóku létt á málunum með forsetaframbjóðendum. Sama gerðu þeir í lok árs þegar alþingiskosningar voru haldnar í lok nóvember og kynntu til leiks formenn þeirra flokka sem buðu fram til Alþingis.

Tímamót og sögulegir viðburðir

Árið 2024 einkenndist af óvæntum atburðum sem gerðu það að verkum að nokkur hreyfing var á framleiðslu og dagskrá RÚV. Árið hófst á tilkynningu forseta Íslands um að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri og því þurfti að gera rúm í dagskrá fyrir forsetakosningar sem fóru fram þann 1. júní.

Í lok árs óskaði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra eftir lausn fyrir ríkisstjórn sína og alþingiskosningar voru síðan haldnar. Nóvember einkenndist því af kosningabaráttu stjórnmálaflokkanna með tilheyrandi færslum í dagskrá. Að auki gaus sex sinnum á Sundhnúksgígaröðinni með tilheyrandi dagskrárbreytingum. Það má því segja að árið hafi boðið upp á ýmsa óvænta atburði.

Íslenskar kvikmyndir 

RÚV hefur lagt sig fram um að styðja við íslenska kvikmyndagerð og hefur að vanda keypt sýningarréttinn fyrir flestar þær myndir sem framleiddar eru á Íslandi.

Sýndar voru meðal annars myndirnar Á ferð með mömmu, Villibráð, Svar við bréfi Helgu, Með allt á hreinu, Tryggð og Veðramót, svo nokkrar séu nefndar.

Íslenskar heimildarmyndir 

Fjölmargar heimildarmyndir voru sýndar á árinu og má þar nefna Maður margra tóna sem fjallaði um Jón Ólafsson sextugan, Hringfarinn ferðaðist með okkur um Patagóníu, og Tónskáldið fjallaði um Gunnar Þórðarson og hans framlag til tónlistar á Íslandi. Við sýndum myndirnar Fjallkonan, Konung fiðrildanna, Endurgjöf, Skuld, Reykjavík árið 1944, söguna um Johnny King, og Lífið er helgileikur um Þórunni Valdimarsdóttur rithöfund, svo nokkrar séu nefndar.

Leiknir íslenskir þættir 

Við hófum árið 2024 með því að frumsýna þáttaröðina Húsó sem framleidd var af Glass River og leikstýrt af Arnóri Pálma Arnarsyni. Þeir fjalla um Heklu sem hefur verið inn og út af meðferðarstofnunum frá unglingsaldri. Þegar hún missir forræði yfir dóttur sinni gerir hún tilraun til að skrá sig í Hússtjórnarskólann í Reykjavík. Þættirnir voru sex talsins.

Um páskana sýndum við sjónvarpsmyndina Nokkur augnablik um nótt sem var unnin upp úr samnefndu leikhúsverki Þjóðleikshússins frá 2022. Verkið var skrifað af Adolfi Smára Unnarssyni og leikstýrt af Ólafi Egilssyni. Sagan gerist á fullkomnu sumarkvöldi í fullkomnum sumarbústað. Björk kynnir þar nýja kærastann fyrir systur sinni og allt stefnir í rólega kvöldstund, en stundum þarf ekki nema nokkur augnablik til þess að allt fari úrskeiðis.

Í lok október var þáttaröðin Ráðherrann 2 frumsýnd í tveimur hlutum. Að þessu sinni snýr Benedikt Ríkharðsson aftur í stjórnmál eftir leyfi frá embætti forsætisráðherra vegna geðhvarfa. Hann er brennimerktur vegna fordóma í garð geðsjúkdóma. Aðalhlutverk leika Ólafur Darri Ólafsson og Aníta Briem. Leikstjórar voru Arnór Pálmi Arnarson og Katrín Björgvinsdóttir.

Viðburðir og beinar útsendingar 

Hefðbundnir viðburðir hvers árs eru bókmenntaverðlaunin, Gríman, Eddan, íslensku menntaverðlaunin og íslensku tónlistarverðlaunin. Á UngRÚV voru það Skrekkur, Skólahreysti, Söngkeppni Samfés, Sögur verðlaunahátíð barnanna og fleira.

Tvær safnanir fóru fram á árinu 2024, sú fyrri var G-vítamín, Gleðiþáttur fyrir geðheilsuna sem var söfnunarþáttur fyrir Geðhjálp og fjallaði aðallega um hvað hægt er að gera fyrir geðheilsuna. Umsjónarmenn voru Viktoría Hermannsdóttir og Þorsteinn J.

Búðu til pláss var söfnunarþáttur fyrir Unicef sem fór fram í nóvember 2024. Var hann sögulegur vegna þess að þar tóku sig saman sjónvarpsstöðvarnar þrjár; RÚV, Síminn og Stöð 2 og söfnuðu í einu átaki heimsforeldrum fyrir Unicef. Umsjónarmenn voru Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, Fannar Sverrisson og Sandra Barilli.

Fjölmargir tónleikar voru ýmist teknir upp eða sýndir beint og var Tónaflóð á menningarnótt stærsti viðburðurinn. Aðrir viðburðir voru Aldrei fór ég suður, Ljósanótt, Bræðslan og Syngjandi vor – Landsmót íslenskra kvennakóra. Auk þess var sýnt frá Músiktilraunum og að vanda áttum við gott samstarf við Sinfóníuhljómsveitina með útsendingum eins og Klassíkin okkar, Sinfóníukvöld í sjónvarpi og Víkingur leikur Goldberg-tilbrigðin. Stúdíó RÚV var auk þess á sínum stað.

Þann 1. desember, á degi íslenskrar tónlistar, veitti Tónlistarráð í fyrsta sinn þakkarorðu íslenskrar tónlistar og var það tónlistarmaðurinn og lagahöfundurinn Magnús Eiríksson sem hana hlaut. Sýnt var beint frá afhendingunni og kom þar fram margt af þekktasta tónlistarfólki Íslands og flutti lög eftir Magnús.

Uppistand Sögu Garðarsdóttur, Allt eðlilegt hér og uppistand Bergs Ebba, Kynslóðir voru sýnd og einnig leikritin Vertu úlfur og Njála á hundavaði.

Erlent efni

Erlend dagskrá einkenndist af þematengdri dagskrá árið 2024, allt frá konum í kvikmyndagerð til forsetakosninga í Bandaríkjunum, og sönn sakamál voru krufin til mergjar í leiknum spennu- og heimildarþáttum.

 

Sterkar konur voru í forgrunni allt árið. Þar bar hæst heimildarþáttaröðin Konur í kvikmyndagerð þar sem kvikmyndasagan er skoðuð í gegnum linsu kvenna í kvikmyndagerð. Sýndar voru 13 kvikmyndir frá ólíkum heimshornum og frá ólíkum tímum og sjónum var beint að merkum konum í mannkynsögunni, til dæmis í leiknu heimildarmyndinni Florence Nightingale – brautryjandi í hjúkrun; þáttunum Bardot um Brigitte Bardot; og Valdatafli þar sem rakin er saga Gro Harlem Brundtland, hugsjónamanneskju og læknis sem kemst til æðstu meorða í norksum stjórnmálum.

Aðrir erlendir heimildarþættir vöktu athygli á árinu: Svartur svanur fjallar um tengsl lögfræðings við undiheima Danmerkur og afhjúpar glæpastarfsemi víða á Norðurlöndum. Í Sögu Svíþjóðar er saga Svíþjóðar rakin frá ísöld til dagsins í dag. Einu sinni var á Norður-Írlandi er margverðlaunuð sería frá BBC þar sem fjallað er um átökin á Norður-Írlandi á persónulegum nótum frá ýmsum hliðum. Síðast en ekki síst er fjallað um lítt þekkta atburði í seinni heimsstyrjöldinni í Stríði á norðurslóðum.

 

Fjölbreytt erlent efni frá ýmsum löndum var á boðstólum: Bláu ljósin í Belfast og Skálmöld í Sherwood frá Bretlandi; Babýlon Berlín frá Þýskalandi; Flóttabíllinn frá Úkraínu; Carmenrúllur frá Danmörku, svo fátt eitt sé nefnt.

Framleiðsla Rásar 1

Árið 2024 var mjög fjölbreytt hvað varðar vandað dagskrárefni á Rás 1. Í loftið fóru nýir þættir í bland við þætti sem margir hverjir hafa verið á dagskrá um árabil og haldið stöðugum vinsældum.

Vinna hófst í haust við að skrásetja formlega til útgáfu dagskrárstefnu Rásar 1. Hlutverk rásarinnar er víðfeðmt, rótgróið og bundið við ýmsar hefðir en samtímis síbreytilegt, og funduðu starfsmenn á hugarflugsfundi að hausti þar sem mörg áhersluatriði voru tínd til. Til stendur að kalla saman hóp hlustenda og áhugasamra á opnum fundi á árinu 2025 til að leggja sitt af mörkum við mótun fyrrnefndrar stefnu.

Útvarpsleikhúsið

Fjórar leiknar þáttaraðir voru fluttar á vegum Útvarpsleikhússins árið 2024 en Útvarpsleikhúsið heyrir nú undir hlaðvarpsframleiðslu RÚV og framleiðir fyrst og fremst hlaðvarpsvæn verk. Fyrst má nefna Víkinga, leikna hlaðvarpsseríu í níu hlutum. Þáttaröðin var unnin af sænska ríkisútvarpinu SR með stuðningi frá Nordvision-sjóðnum, NRK (norska ríkisútvarpinu), DR (danska ríkisútvarpinu) og RÚV. Verkið sækir innblástur í heimildir á borð við Íslendingasögurnar og aðrar norrænar fornsögur en nýtir sér möguleika skáldskaparins þegar við á.

Um páska flutti Útvarpsleikhúsið Góða hirðinn, heimildaleikhúsverk í fjórum hlutum þar sem Friðgeir fer í Góða hirðinn og finnur þar hluti sem hann grunar að hafi lent þar fyrir misskilning og reynir að skila aftur til réttmætra eigenda sinna. Í júlí var Ástarvitinn kynntur til sögunnar, leikið hlaðvarp í fjórum þáttum þar sem þerapistinn Jónína Guðmann tekur á móti pörum í hlaðvarpi sínu Ástarvitanum og leiðbeinir þeim í ólgusjó ástarlífsins. Ástarvitinn var tilnefndur til evrópsku ljósvakaverðlaunanna Prix Europa í flokki skáldaðra útvarpsverka.

Barnaleikritið Nærbuxurnar í Hamraborg, verk í fimm þáttum eftir Viktoríu Blöndal, leit svo dagsins ljós í nóvember og um jólin bauð Útvarpsleikhúsið upp á Þau sjá okkur ekki í myrkrinu, verk í tveimur hlutum sem byggir á viðtölum Kristínar Eiríksdóttur við Ahmed Almamlouk og Fadiu Redwan sem flúðu hingað frá Gaza. Úr urðu tveir einleikir sem Hilmar Guðjónsson og Ilmur Kristjánsdóttir fluttu og vakti verkið mikla athygli.

Tónlist á Rás 1

Á árinu 2024 hélt Rás 1 áfram að spegla íslenskt tónlistarlíf með reglulegum tónlistarþáttum sínum, kynningu á nýrri tónlist á milli dagskrárliða og útsendingum tónleikahljóðrita af fjölbreyttum toga.

Beinar útsendingar eru frá flestöllum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og útsendingar Rásar 1 frá ýmsum hátíðum og viðburðum hafa aukist á ný, eftir fyrrnefnda sátt í kjaradeilu við fulltrúa flytjenda. Þessum útsendingum tengist umfangsmikil dagskrárgerð. Auk þess er deilt reglulega með hlustendum því besta sem í boði er af tónleikasviðum Evrópu á tónleikakvöldum.

Sígild og samtímatónlist innlend og erlend, jaðartónlist íslensk, djasstónlist innlend og erlend, forvitnilegar sögur alls konar tónlistar í þættinum Á tónsviðinu – og heimstónlistin eiga sér fastan samastað á milli kl 14 og 15 virka daga.

Kunnuglegir alþýðutónar hljóma í tónlistarþáttum árdegis virka daga kl 10.15, bæði íslenskir og erlendir, og sú dagskrárlína býður líka upp á óskalög og kveðjur á milli hlustenda á föstudögum.

Í föstum þáttum virkra daga er talsvert af tónlist líka, sem dregur dám af umfjöllunarefnum hverju sinni og er því jöfnum höndum úr heimi dægurlaga, þjóðlaga, djasstónlistar og víðar.

Auk þess er tónleikahaldi gefinn gaumur – útgáfum og ýmsu því sem tilheyrir daglegu lífi listafólksins. Vikuleg umfjöllun um sígilda tónlist er t.a.m.  á Morgunvakt Rásar 1.

Rás 1 vinnur einnig að innleiðingu nýs kerfis til dagskrársetningar tónlistar sem vonandi á eftir að tryggja aukna fjölbreytni í hólfum sem myndast óumflýjanlega í skapandi umhverfi útvarpsins.

Hlaðvarpsritstjórn

Miðlun hljóðvarpsefnis með ólínulegum hætti verður sífellt mikilvægari þáttur í framleiðslu RÚV. Þar starfar nú hlaðvarpsritstjórn sem heldur utan um þá framleiðslu. Fjölmargar þáttaraðir sem framleiddar eru með ólínulega hlustun í huga voru framleiddar á árinu. Vinsælastar á spilara RÚV og hlaðvarpsveitum voru Eldflaugaförin, Bréfberinn sem hvarf og Víkingar. Einnig vöktu þáttaraðirnar Skaði og Grindavík mikla athygli fyrir efnistök og samfélagslegt mikilvægi. Skaði fékk tilnefningu Blaðamannafélags Íslands sem umfjöllun ársins 2024. Allar þessar seríur byggja á heimildum og notfæra sér efnistök heimildaþáttagerðar, og er ljóst að hlustendur kunna að meta slíka þáttagerð.

Fastir dagskrárliðir útvarpsrásanna ganga margir hverjir vel í ólínulegri hlustun á hlaðvarpsveitum. Mætti þar nefna þætti á borð við Í ljósi sögunnar, Frjálsar hendur, Segðu mér, Þetta helst og Heimskviður.

Langflestir hlustendur ólínulegs útvarpsefnis nota spilara RÚV í vef og appi. Hlaðvarpsefni RÚV er einnig miðlað á öðrum hlaðvarpsveitum s.s. Spotify og Apple podcasts.

Tónleikaraðir

Gerðir voru samningar við metnaðarfullar tónleikaraðir eins og Tíbrá Salarins í Kópavogi, Myrka músíkdaga, State of the Art Festival, Stórsveit Reykjavíkur og Reykjavik Early Music Festival.  Beinar útsendingar voru frá Djasshátíð Reykjavíkur og frá hátíðartónleikum Mótettukórsins, Schola Cantorum og Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík, sem fluttu Jólaóratóríu Bachs í Hörpu á milli jóla og nýárs. Þessar hljóðritanir hljóma í Tónhjólinu á sunnudögum og/eða í kvöld- og hátíðardagskrám eftir því sem við á. Einnig tók Rás 1 þátt í alþjóðlegum jólatónleikadegi EBU með hljóðritun frá jólatónleikum Kórs Hallgrímskirkju og Barokkbandsins Brákar.

Jólalag ársins

Cauda Collective samdi jólalag ársins að beiðni Rásar 1, og það var að vanda frumflutt í dagskrá okkar um hátíðarnar. Einnig var að venju flutt nýtt hljóðrit barokktónlistar í dagskrárliðnum Húmar að jólum, sem hljómar fram að kirkjuklukkum sem hringja inn jólin á aðfangadagskvöld.

Tónlistarstefna

Árið 2023 skipaði útvarpsstjóri starfshóp sem falið var að móta tónlistarstefnu útvarpsins; Rásar 1 og Rásar 2. Á árinu 2024 var ákveðið að dagskrárdeild sjónvarps tæki einnig þátt í starfinu. Þar voru mótaðar tillögur að heildartónlistarstefnu fyrir RÚV. Í lok ársins voru drög að stefnunni kynnt fyrir áhugasömum og hagsmunaaðilum á sérstökum fundi í Útvarpshúsinu, þar sem fjörugar umræður urðu auk þess sem góðar ábendingar bárust. Vinna við stefnuna stendur enn og verður gefin út formlega í vor.

Kjarasamningsmál

Á vormánuðum náðust nýir samningar við FÍH eftir að hljóðritun tónleika hafði að mestu legið niðri vegna deilna um túlkun á kjarasamningi milli RÚV og félagsins. Góður gangur hefur verið á hljóðritunum síðan og stefnt að enn öflugra samstarfi milli tónlistarbransans og RÚV til að miðla skilmerkilega frá lifandi íslensku tónlistarlífi til hlustenda.

Hlutverk

Hlutverk Rásar 2 er miðlun á íslenskri tónlist og á árinu lauk þáttaröðinni  Árið er: Saga íslenskrar tónlistar, þar sem eitt ár er tekið fyrir í einu. Í lok árs var síðasti þátturinn sendur út þegar Gunnlaugur Jónsson og Ásgeir Eyþórsson gerðu upp árið 2020. Eftir standa þættir um árin 1980 til 2020 í safni og í spilara RÚV, sem eru mikilvæg heimild um íslenskt tónlistarlíf.

Fyrst og fremst í íslenskri tónlist 

Rás 2 er leiðandi í umfjöllun um íslenska tónlist og sendi beint út frá fjölda tónleika, þar á meðal frá úrslitakvöldi Músíktilrauna, Aldrei fór ég suður, Bræðslunni og Iceland Airwaves. Stúdíó RÚV heldur áfram að vaxa og dafna, ekki aðeins sem línulegur útvarpsþáttur, heldur einnig á ruv.is og í sjónvarpinu.   Í Stúdíó A koma fram íslenskir listamenn og flytja nýja íslenska tónlist. Efnið er sent út í línulegri dagskrá Rásar 2, sem stök myndbönd á samfélagsmiðlum og í sjónvarpsþáttum. Tónaflóð, stórtónleikar Rásar 2 á Arnarhóli á Menningarnótt, voru sendir út að venju.

Sumarið

Sumarið 2024 voru gerðar töluverðar breytingar á sumardagskrá Rásar 2. Þátturinn Hljóðvegur 1 fór í loftið í umsjón Steineyjar Skúladóttur, Jóhanns Alfreðs Kristinssonar, ásamt Kristjáni Frey Halldórssyni. Í þættinum var lögð áhersla á að miðla því sem var að gerast út um allt land og í því skyni fóru umsjónarmenn víða um land og sendu út í beinni útsendingu. Félagsheimilið er íslenskur skemmtiþáttur sem var á dagskrá eftir hádegi alla sunnudaga um sumarið og naut mikilla vinsælda. Þátturinn var í umsjón Friðriks Ómars Hjörleifssonar.

Aðrir sumarþættir sem nutu vinsælda voru þættir Viktoríu Blöndal um sögu sveitaballanna og Áskels Heiðars Ásgeirssonar um sögu íslenskra útihátíða.

Viðburðir

Tónlistarárið 2024 hjá Rás 2 var gott. Kynjahlutfall flytjenda í 100 mest spiluðu lögunum var jafnt (50% konur og 50% karlar). Íslensk tónlist var sem fyrr í öndvegi,  53% af 100 mest spiluðu lögum stöðvarinnar voru íslensk. Á árinu voru 850 ný íslensk lög frumflutt á Rás 2 í þáttunum Popplandi, Undiröldunni, Ólátagarði og fleirum.

Rás 2 var í samstarfi við tónlistarviðburðina Aldrei fór ég suður á Ísafirði, Bræðsluna á Borgarfirði eystra, Mannfólkið breytist í slím á Akureyri, Upprásina í Reykjavík og Iceland Airwaves í Reykjavík og sendi út frá öllum viðburðunum. Einnig var fjallað um alþjóðlegu tónlistarhátíðina Eurosonic, Söngvakeppnina, Eurovision og Músíktilraunir.

 

Nýsköpun

Rás 2 stóð fyrir árlegri jólalagakeppni til að styðja við nýsköpun í tónlist, þar sem meira en 50 ný íslensk jólalög voru skráð inn. Auk þess voru vikulegar tónleikaupptökur sendar út í þættinum Konsert á fimmtudagskvöldum og þeim dreift til annarra ríkisstöðva í Evrópu í gegnum samstarfsvettvang Sambands evrópskra útvarpsstöðva, EBU.

Almannavarnahlutverk

Fréttaflutningur á klukkutíma fresti og regluleg umfjöllun um fréttir og dægurmál er mikilvæg stoð í dagskránni. Rás 2 hefur stóru hlutverki að gegna í almannavarnahlutverki RÚV og fréttastofa hefur greiða aðkomu að dagskrá þegar mikið liggur við.

Dagskrá var ítrekað rofin á árinu og skipt yfir í beinar fréttaútsendingar í tengslum við eldsumbrotin á Reykjanesskaga. Við þær aðstæður starfar fréttastofan náið með dagskrárgerðarfólki Rásar 2 og er helstu fréttum og mikilvægum upplýsingum miðlað til þjóðarinnar. Hlustunartölur benda til þess að stór hluti þjóðarinnar treysti á Rás 2 til þess að fá nýjustu upplýsingar þegar stórviðburðir eiga sér stað.

Einnig er dagskrá rofin í tengslum við stóra blaðamannafundi og fyrstu viðbrögðum við stórum tíðindum útvarpað.

Fyrir síðustu alþingiskosningar voru sendir út kosningaþættir á rásinni og reglulega var leitað eftir viðbrögðum almennings um málefni liðandi stundar. Þá var forsetakosningunum einnig gerð ítarleg skil.

Í fréttum er þetta helst

Fréttastofa RÚV starfar allan sólarhringinn, allan ársins hring. Fréttamenn RÚV eru með starfsstöðvar í Efstaleiti, á Akureyri, Egilsstöðum, í Borgarnesi og í Brussel. Undir fréttastofuna heyra fréttatímar útvarps og sjónvarps, fréttaskýringaþættir, umræðuþættir og fréttaþjónusta RÚV á netinu og samfélagsmiðlum. Þá heyrir RÚV English, RÚV Polski og fréttir á auðskildu máli undir fréttastofuna sem og veðurfréttaþjónusta RÚV. Önnur stór verkefni fréttastofunnar eru til að mynda fréttaannálar í útvarpi og sjónvarpi, útsending frá stefnuræðu forsætisráðherra og umræðum um hana, útsending frá eldhúsdagsumræðum á Alþingi og umfjöllun í aðdraganda kosninga.

Stórt fréttaár

Það var engin lognmolla í fréttum árið 2024. Ítrekuð eldgos í nágrenni Grindavíkur settu mark sitt á fréttaárið. Alls urðu eldgosin sex og höfðu gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag. Eitt prósent þjóðarinnar hafði búið í Grindavík en var á vergangi í byrjun árs. Ríkið keypti nánast allt íbúðarhúsnæði í bænum með miklum tilkostnaði. Fréttastofa RÚV stóð vaktina og sendir voru út ófáir aukafréttatímar þegar eldgos hófust.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti óvænt á nýársdag að hann hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Framboð til embættis forseta tóku strax að berast og þegar upp var staðið voru 12 í framboði til embættis forseta í kosningum í byrjun júní. Þetta urðu þannig umfangsmestu forsetakosningar í sögu lýðveldisins. Fréttastofa RÚV fjallaði ítarlega um frambjóðendur og málefnin í aðdraganda kosninga, og hélt kosningavöku að kvöldi kjördags. Þá voru send út ítarleg viðtöl við fráfarandi forseta og Höllu Tómasdóttur, nýkjörinn forseta, þann 1. ágúst, daginn sem hún tók við embættinu.

Stjórnmál

Stjórnmál voru fyrirferðamikil í fréttaumfjöllun ársins en um miðjan október tilkynnti Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, að hann hygðist slíta ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar, og boða til kosninga í lok nóvember. Fréttastofan fjallaði um framboð og málefni í aðdraganda kosninganna og með kosningavöku að kvöldi kjördags.

Það var engin lognmolla á erlendum vettvangi heldur en hæst bar forsetakosningar í Bandaríkjunum í byrjun nóvember. Fréttastofan fylgdist með aðdraganda og úrslitum kosninganna, meðal annars með fréttateymi á vettvangi og með kosningavöku og aukafréttatíma daginn eftir.

Alls var sendur út 21 aukafréttatími í sjónvarpi árið 2024.

Traust og aukið áhorf

Traust er öllum fjölmiðlum nauðsynlegt, en það er hvorki sjálfgefið né sjálfsagt og fréttastofan er þakklát fyrir það traust sem almenningur ber til hennar. Samkvæmt könnun sem var gerð í nóvember 2024 sögðust 67,2% aðspurðra bera mikið traust til fréttastofunnar. Því þarf að viðhalda með faglegum og góðum vinnubrögðum alla daga ársins. Það er umtalsvert meira traust en mældist í sömu könnun í garð annarra fjölmiðla hér á landi en traust til allra fjölmiðla dvínar milli ára.

Þegar á reynir leitar þjóðin til fréttastofu RÚV og það sést glöggt á niðurstöðum áhorfs- og hlustunarmælinga. Meðaláhorf á sjónvarpsfréttir kl. 19 var um 25,9% árið 2023 samanborið við 24,3% árið 2023. Mest áhorf var á sjónvarpsfréttatíma sem tengdust jarðhræringum við Grindavík í janúar og febrúar. Meðaláhorf á fréttir kl. 22 var um 14,2%. Meðalhlustun á hádegisfréttir RÚV var 9,1%. Meðalhlustun á Spegilinn var 5,1%.
Meðaláhorf á Kveik var 18,2%, á Kastljós 15,5% og á Silfrið 9,4%

Nýjungar á fréttastofunni

Á árinu var búin til ný ritstjórn undir hatti fréttastofunnar þar sem saman kemur dagskrárgerðarfólk í fréttatengdum þáttum útvarps og sjónvarps. Sumir þessara þátta heyrðu áður undir fréttastofuna, aðrir voru færðir þangað. Undir þessa ritstjórn heyra Kastljós, Kveikur, Silfrið og Torgið í sjónvarpi og Spegillinn, Morgunútvarpið, Þetta helst, Heimskviður og Vikulokin í útvarpi. Með þessari breytingu er ætlunin að styrkja hverja ritstjórn fyrir sig, bæta ritstjórnarlegt samtal en einnig yfirsýn um efnistök og viðmælendur.

Sú breyting varð vorið 2024 að útgáfu fréttahlaðvarpsins 7 mínútur með fréttastofu RÚV var hætt. Hlaðvarpið var gefið út í hálft ár en útgáfunni var hætt í hagræðingarskyni.

Í byrjun ársins hóf fréttastofa RÚV þátttöku í samstarfsverkefni EBU sem kallast A European Perspective. Þær fréttastofur sem taka þátt skiptast sín á milli á fréttaefni fyrir vef. Efnið er þýtt með gervigreind sem sparar mjög mikla vinnu, þó allar þýðingar þurfi að lesa yfir fyrir birtingu. Með þátttöku í þessu verkefni gefst fréttastofu RÚV tækifæri til að nýta erlent gæðaefni fyrir lesendur ruv.is og efnið nýtist jafnframt sem grunnur að fréttaskýringum í ljósvakamiðlum. Þarna er gjarnan efni frá löndum sem annars rata lítið í fréttir á Íslandi.

Á árinu hófst samtal við svæðisbundna miðla um mögulegt samstarf við RÚV. Í þjónustusamningi RÚV við ríkið segir meðal annars að Ríkisútvarpið leiti leiða til að efla samstarf við staðbundna fjölmiðla á landsbyggðinni. Með það í huga bauð fréttastofa RÚV staðbundnum miðlum að þiggja streymi frá kjördæmaþáttum RÚV fyrir alþingiskosningarnar. Fréttastofan deilir auk þess niðurstöðum kannana á fylgi flokka eftir kjördæmum með staðbundnum miðlum. Frekara samstarf er til umræðu.

Haustið 2024 tók fréttastofan þátt í verkefnum á vegum Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar í Árósum sem gekk út á að hýsa landflótta, rússneskan blaðamann. Fjöldi blaðamanna hefur þurft að flýja Rússland og Norræna blaðamannamiðstöðin hefur tekið að sér að finna tækifæri fyrir þá hjá norrænum miðlum. Fréttastofa RÚV tók á móti einum blaðamanni og hýsti um tveggja mánaða skeið.

Frá miðjum júní og fram í miðjan ágúst var ákveðið að færa kvöldfréttir sjónvarps frá klukkan 19 til klukkan 21 og fella niður seinni fréttatíma sjónvarps. Þetta var gert vegna þess að á þessu sama tímabili voru spilaðir leikir á EM karla í fótbolta og fljótlega eftir að EM lauk hófust Ólympíuleikarnir í París. Útsendingar frá þessum stóru íþróttaviðburðum sköruðust á við hefðbundinn útsendingartíma frétta. Því var tekin sú ákvörðun að seinka fréttum enda sýna áhorfstölur að yfir sumartímann seinkar sjónvarpsáhorfi almennt á kvöldin. Áhorf á sjónvarpsfréttir hélst þrátt fyrir þessa breytingu, bæði þegar fréttir komu eftir leiki á EM og aðra daga.

Íþróttadeild RÚV 

RÚV fylgir eftir afreksfólki Íslands og birtir íþróttaefni sem sameinar íslensku þjóðina. Við fjöllum um fjölbreyttar íþróttagreinar og allar mögulegar hliðar á íslensku íþróttalífi. RÚV leggur mikla áherslu á að fjalla um íþróttaiðkun allra kynja og ólíkra hópa. Með þessu varðveitum við íþróttasögu Íslands og hvetjum til aukinnar íþróttaiðkunar meðal þjóðarinnar. Árið 2024 var stórt íþróttaár þar sem hæst stóðu Ólympíuleikarnir í París og Evrópumót karla í fótbolta.

Ólympíuleikarnir í París

Stærsti sjónvarpsviðburður ársins, Ólympíuleikarnir 2024 í París, voru settir við mikla viðhöfn föstudagskvöldið 26. júlí. Að þessu sinni gekk íþróttafólkið ekki inn á lokaðan leikvang eins og vant er, heldur sigldi það í bátum niður Signu. Fimm Íslendingar kepptu fyrir Íslands hönd að þessu sinni. Tíu dögum eftir að Ólympíuleikunum lauk var svo komið að Ólympíumóti fatlaðra í París. Ísland sendi þar einnig fimm keppendur til leiks.

Sýndarsvið RÚV

RÚV var með viðamikla dagskrá frá Ólympíuleikunum hér heima og í París. Starfsfólk íþróttadeildar fylgdi eftir afreksfólkinu okkar á stóra sviðinu og sýndi yfir 300 klukkustundir af fjölbreyttum íþróttagreinum í beinni útsendingu.

Hver keppnisdagur var svo gerður upp í Ólympíukvöldi. Myndver RÚV var breytt í sýndarsvið (e. Virtual Reality Studio) sem er notað víða erlendis. Þessi nýja tækni felur í sér hagræðingu á mörgum sviðum eins og við smíði og geymslu á leikmyndum. Þetta er umhverfisvæn lausn og minnkar einnig sóun eftir notkun. Sýndarsviðið opnar möguleika á mun fjölbreyttari dagskrárgerð og betri þjónustu við áhorfendur eins og sást vel á Ólympíuleikunum. Þá framleiddi Íþróttadeild átta hlaðvarpsþætti af hetjum og skúrkum Ólympíusögunnar. Á árinu tryggði RÚV sér sýningarréttinn á Ólympíuleikunum til 2032.

Landsliðin okkar

Að venju hélt íslenska karlalandsliðið í handbolta á stórmót í janúar sem að þessu sinni var spilað í Þýskalandi. Riðill Íslands var spilaður í München og Íslendingar flykktust á staðinn í þúsundatali. Íslenska liðið komst í milliriðil en náði ekki að tryggja sér farseðilinn á Ólympíuleikana í París 2024. Sem fyrr var karlalandsliðið í handbolta í janúar vinsælt hjá íslensku þjóðinni og raðaði sér í efstu sætin á lista yfir vinsælasta sjónvarpsefni ársins.

EM í handbolta kvenna

Annað árið í röð komst íslenska kvennalandsliðið í handbolta á stórmót. Það keppti á Evrópumótinu í Innsbruck í Austurríki. Þrátt fyrir fína spretti komst liðið ekki í milliriðil. Íslendingur fór þó alla leið í úrslitin á EM, því Þórir Hergeirsson gerði Noreg að Evrópumeistara eftir sigur á Danmörku í úrslitum í beinni útsendingu á RÚV. Þetta var síðasta mót Þóris sem þjálfari Noregs og hans elleftu gullverðlaun á stórmóti.

Karlalandsliðið í körfubolta stóð sig vel í undankeppni Evrópumótsins. Fyrst vann liðið Ungverja í Laugardalshöll og í lok árs vann liðið stórkostlegan sigur á Ítalíu ytra. Með sigrinum er Ísland í afar góðri stöðu til að komast í lokakeppni EM 2025 sem verður á RÚV.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta tryggði sér sæti á EM kvenna í fótbolta sumarið 2025 með glæsilegum 3-0 sigri á Þjóðverjum. Þetta var aðeins í annað sinn sem íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vinnur Þýskaland. Evrópumótið verður haldið í Sviss í júlí 2025 og Ísland dróst í A-riðil með Sviss, Noregi og Finnlandi. RÚV tryggði sér sýningarréttinn á mótinu og verða allir leikir mótsins sýndir í beinni útsendingu á RÚV og RÚV 2.

Stórmót, Íslandsmót, bikarúrslit, Skólahreysti og aðrir viðburðir

RÚV hélt áfram að sýna frá Íslandsmótum og bikarúrslitum í hinum ýmsu íþróttagreinum í veglegri umgjörð. Meðal þess voru handbolti, fótbolti, körfubolti, fimleikar, frjálsíþróttir, sund, golf, blak og Skólahreysti. Auk þess sýndi RÚV frá nær öllum stórmótum þar sem íslenskt íþróttafólk var meðal keppenda. Þar bar hæst sigur Vals í Evrópubikar karla í handbolta og HM í kraftlyftingum í Njarðvík þar sem Sóley Margrét Jónsdóttir varð heimsmeistari.

EM karla í fótbolta

Einn stærsti íþróttaviðburður ársins var EM karla í fótbolta í Þýskalandi. Íslenska landsliðið var hársbreidd frá að tryggja sig inn á mótið. RÚV sýndi alla leiki EM í beinni útsendingu auk þess sem Stofan var með uppgjörsþætti bæði fyrir og eftir leiki. Áhorfið jókst jafnt og þétt þegar líða tók á mótið, 102 þúsund horfðu að meðaltali á hverja mínútu og alls 145 þúsund horfðu í að a.m.k. 5 mín. samfleytt á úrslitaleikinn í beinni útsendingu á RÚV. Íþróttadeild RÚV jók umfjöllun sína á samfélagsmiðlum meðan á mótinu stóð í því markmiði að ná betur til yngri kynslóðar. Það sama var gert á Ólympíuleikunum. Aldrei áður hefur eins mikil umferð verið um samfélagsmiðla íþróttadeildar eins og á árinu.

KrakkaRÚV

KrakkaRÚV býður upp á fjölbreytt efni fyrir börn á þrjá vegu; í línulegri dagskrá, í spilara og á vefmiðlum. KrakkaRÚV einbeitir sér að því að sinna börnum á aldrinum 0–12 ára. Kjarni þjónustunnar fer fram á krakkaruv.is þar sem spilarinn er. Á vefnum má nálgast allt innlent og erlent barnaefni RÚV, gamalt og nýtt, fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps og talsettar teiknimyndir ásamt vönduðum útvarpsþáttum fyrir börn. KrakkaRÚV er í línulegri dagskrá alla daga milli 18:00 og 18:50 og aukalega um helgar frá 07:00 til 10:00. Að staðaldri eru framleiddir 6 nýir þættir á viku auk annars tilfallandi efnis sem framleitt er. Á KrakkaRÚV er lögð mikil áhersla á að efnið endurspegli íslenskt samfélag eins fjölbreytt og það er. KrakkaRÚV vill vera sameinandi afl með það að leiðarljósi að koma alltaf fram af virðingu við öll.

KrakkaRÚV fyrir öll

Fjölbreytt framboð var á efni fyrir börn og ungmenni á öllum miðlum RÚV árið 2024. Áhersla var lögð á fjölbreytileika, virðingu og sameiningu. Þjónusta við þau allra yngstu (0-3 ára) hélt áfram að þróast og mikil áhersla var lögð á innkaup á teiknimyndum. Einnig var áhersla á leikið efni þar sem ný sería af Stundinni okkar hóf göngu sína, sem er alfarið leikin ásamt 24 þáttum af leiknu jóladagatali Þorra og Þuru. Sögur stuttmyndir voru einnig á sínum stað.

Krakkafréttir

Ný ritstjórn tók við Krakkafréttum í haust og breytingar urðu á áherslum í framleiðslu. Aukin áhersla var lögð á að fara út úr húsi að taka upp innslög fyrir Krakkafréttir, þar sem krakkar eru í forgrunni. Að meðaltali eru nú framleidd 5-6 innslög á mánuði af þessum toga.
Krakkafréttir eru enn sem fyrr á dagskrá fjóra daga vikunnar. Þar eru fluttar skýrar og hnitmiðaðar fréttir af því helsta sem gerist í íslensku samfélagi og heiminum öllum. Í fréttatímum eru meðal annars fréttir af vísindum, íþróttum, menningu og krökkum sem gera garðinn frægan. Gunnar Hrafn Kristjánsson og Kolbrún María Másdóttir héldu áfram að flytja fréttir í stóra fréttastúdíóinu auk Emblu Bachmann og Vilhjálms Haukssonar. Árið 2024 voru allar Krakkafréttir sendar út táknmálstúlkaðar á aðalrás og án táknmálstúlkunar á RÚV 2. Tiktok-aðgangur Krakkafrétta hélt áfram að þróast og auka við sig fylgi.

Kosningar

2024 var stórt kosningaár og voru gerðir sérstakir kosningaþættir fyrir börn með kynningu á frambjóðendum, annars vegar í forsetakosningunum í júníbyrjun og svo aftur í þingkosningum í nóvember.

Stundin okkar með Bolla og Bjöllu

Seinasta sería af Stundinni okkar með Bolla og Bjöllu var sýnd vorið 2024. Hún segir frá ævintýrum álfanna Bolla og Bjöllu á skrifborðinu hans Bjarma. Ásthildur Úa Sigurðardóttir og Níels Thibaud Girerd fara með hlutverk álfanna og Árni Gunnar Magnússon fer með hlutverk Bjarma. Að auki má finna fróðleg og leikin innslög í Íþróttastund, Heimilisfræði og Föndurstund. Þar fara með lykilhlutverk þau Rafney Birna Guðmundsdóttir, Helga Matthildur Diallo, Jakob Steinsen og Styrmir Orri Orrason. Þættirnir eru skrifaðir af Arnóri Björnssyni, Óla Gunnari Gunnarssyni og Mikael Emil Kaaber, Erlu Hrund Halldórsdóttur og Heklu Egilsdóttur. Leikstjórn er í höndum Agnesar Wild, Heklu Egilsdóttur og Erlu Hrundar Halldórsdóttur.

Stundin okkar – Tökum á loft!

Nýja stundin okkar hóf göngu sína haustið 2024, sem segir frá hinni ævintýralegu veru Loft sem svífur um heiminn í galdraloftbelg ásamt sjónauka sínum henni Sjón. Saman læra þau um ævintýralega veröld íslenskra barna í skátabúðum og kynnast hinni uppátækjasömu Áróru. Í þáttunum er lögð áhersla á fróðleik, virðingu og skemmtun og að finna ævintýri í hversdagsleikanum. Með aðalhlutverk fara Andrés Pétur Þorvaldsson, Agnes Emma Sigurðardóttir, Inga Sóllilja Arnarsdóttir, Lára Jónatansdóttir og Gunnlaugur Sturla Olsen. Þættirnir eru skrifaðir af Heklu Egilsdóttur, Erlu Hrund Halldórsdóttur og Bjarna Kristbjörnssyni.

Jóladagskrá

Mikið úrval var af barnaefni um jólin, innlent og erlent. Þar mátti finna Jólastundina, íslenskt framleitt og leikið jóladagatal með vinunum Þorra og Þuru, Dagar í desember og Hvar er Völundur? Þar voru tvenn talsett jóladagatöl og eitt textað, talsettar teiknimyndir frá Disney, auk meira efnis til viðbótar.

Jólastundin

Jólastundin er einn elsti þátturinn á dagskrá RÚV og því óskaplega mikilvægt að hann haldi áfram að vaxa og dafna í takt við samfélagið. Frá árinu 2021 hefur Jólastundin verið að flestu eða öllu leyti ótengd Stundinni okkar en í ár var ákveðið að fara aftur í ræturnar og halda Jólastundinni innan sömu veraldar og Stundin okkar. Loft undirbjó jólaveislu fyrir nýju vini sína og saman lærðu þau um alls konar siði, jólastress og fleira. Sjón fór á tímaflakk og Vigdís Hafliða flutti lag þeirra í Flott um Grýlu. Handrit var í umsjón Guðmundar Einars.

Þorri og Þura bíða eftir jólunum

Vinirnir Þorri og Þura sneru aftur í sjónvarpið og töldu niður alla daga fram að jólum í desember. Bak við þættina stendur leikhópurinn Miðnætti. Þættirnir voru frumfluttir alla morgna klukkan 6:30 og síðan endursýndir síðdegis.

Krakkaskaupið

Krakkaskaupið hefur fest sig í sessi en það hóf göngu sína árið 2015 og hefur verið á dagskrá 31. desember. Seinustu ár hefur Krakkaskaupið verið frumflutt á besta tíma í kvölddagskrá 30. desember og síðan endursýnt á gamlársdag. Krökkum hefur alltaf gefist tækifæri til að senda inn sínar hugmyndir eða sketsa sem sumir rata í Krakkaskaupið. Seinustu tvö ár hafa valdir sketsar verið endurgerðir af fagfólki. Umsjónarmaður Krakkaskaupsins var Árni Beinteinn Árnason.

Krakkafréttaannáll

Krakkafréttaannállinn hefur verið árlega frá 2016 þar sem helstu viðburðir og fréttir ársins eru teknar saman fyrir börn. Í ár var lögð áhersla á að auka skemmtanagildi í kynningum og annállinn í ár byggðist á ratleik þar sem allir umsjónarmenn ársins komu saman og fundu fréttamola frá árinu. Annálnum lauk síðan á tónlistaratriði frá Öglu Bríet.

Þátttaka barna

Mikið var um þátttöku barna í ýmsum verkefnum á árinu og vegna þess að hægt er að senda inn myndbönd í gegnum Mitt.ruv.is hefur það auðveldað yfirferð á innsendu efni. Börnum gafst tækifæri til að senda inn myndbönd og sækja um þátttöku í eftirfarandi verkefnum á árinu:

Ungt fréttafólk

Alls sóttu 22 um og 8 voru valin til að flytja fréttir á Barnamenningarhátíð.

Krakkaskaupið

Á hverju ári koma inn ótal sketsar frá krökkum sem vilja taka þátt í Krakkaskaupinu. Í ár bárust KrakkaRÚV 65 sketsar. Valdir voru 6 sem voru unnir frekar eða framleiddir aftur með framleiðsluteymi Krakkaskaupsins.

Sögur

Alls bárust 99 innsendingar af stuttmyndahandritum, smásögum, leikhúshandritum og lögum og texta.

Bókaklúbbur

Börnum stendur til boða að vera með í bókaklúbbi KrakkaRÚV. Áhugasamir krakkar sendu inn myndbönd af sér og mörg voru valin til að vera bókaormar í útvarpsþættinum Hvað ertu að lesa? Alls voru tekin viðtöl við 7 bókaorma í stúdíó og talað við um 20 börn í viðtölum um víðan völl. Að auki gátu börn sent inn spurningar til rithöfunda eða komið með ábendingar að umfjöllunarefni. Þátturinn fór á dagskrá vorið 2024.

Krakkakosningar

KrakkaRÚV í samstarfi við umboðsmann barna héldu krakkakosningar í grunnskólum landsins, þar sem börnum gafst tækifæri á að kynna sér frambjóðendur og síðan var haldið til kosninga. Niðurstöður voru síðan kynntar í kosningasjónvarpi RÚV.

Sögur

Sögur er stórt samstarfsverkefni margra stofnana sem allar vinna að barnamenningu og sköpun. Verkefnið hófst 2017 og hefur stækkað ár hvert. Markmiðið er að auka læsi og áhuga á íslenskum barnabókum og sögum, og upphefja í leiðinni barnamenningu á Íslandi.
KrakkaRÚV hefur í gegnum tíðina hvatt krakka til að senda inn smásögu, lag og texta, útvarpsleikrit, handrit að stuttmynd eða leikriti. Höfundar þeirra sagna sem valdar eru ár hvert taka þátt í skapandi smiðjum þar sem fagfólk leiðbeinir og ævintýrin lifna við. Sumar sögur enda í rafbók á vegum Menntamálastofnunar, aðrar í stuttmyndum framleiddum af KrakkaRÚV, nokkur lög lifna við og leikrit líta dagsins ljós á fjölum Borgarleikhússins. Það eru nefnilega engin takmörk á hvar góð saga getur endað.

Í ár voru tvær myndir valdar til framleiðslu, það voru myndirnar Óskahálsmenið eftir Erlu Máney Kristmannsdóttur, Heiðbjörgu Önnu M. Conrad og Rúnu Björgu Þrastardóttur og Skrýtna kaffiævintýrið eftir Ástríði Grímu Ásgrímsdóttur. Myndirnar voru svo settar saman í þáttinn Sögufólk framtíðarinnar ásamt „baktjaldaefni“. Þátturinn var síðan sýndur kvöldið fyrir Sögur – verðlaunahátíð barnanna, þann 7. júní.

Sögur – verðlaunahátíðin er lokapunktur þessa stóra samstarfsverkefnis. Þar eru verk barnanna verðlaunuð auk þess sem börn fá tækifæri til að verðlauna það menningarefni sem þeim fannst skara fram úr á árinu. Hátíðin var sýnd í beinni útsendingu. Fyrir hátíðina voru þrjú lög útsett og frumflutt en þau voru send inn sem hluti af söguverkefninu. Það voru Birgitta Haukdal, Valdimar og Una Torfadóttir sem fluttu lögin.

Heiðursverðlaunahafar hátíðarinnar voru þær Hrefna Hallgrímsdóttir og Linda Ásgeirsdóttir eða Skoppa og Skrítla.

Smástund

Þjónusta við yngstu börnin heldur áfram að dafna og þar er Smástund í forystu. Í þáttunum er notast við tákn með tali, íslensk sönglög og einfalda grafík og þeir eru sérstaklega gerðir til þess að örva málþroska og skilning barna á íslenskri tungu. Um dagskrárgerð sér Agnes Wild og öll tónlist þáttanna er útsett og samin af Sigrúnu Harðardóttur. Smástund eru langvinsælustu þættirnir sem hafa verið framleiddir á KrakkaRÚV en þeir eru í 2. sæti sem mest sótta efnið í spilara RÚV.

Teiknimyndir

KrakkaRÚV heldur áfram að bjóða upp á fjölbreyttar og skemmtilegar teiknimyndir fyrir börnin. Aðaláhersla er lögð á að kynjahlutfall sé jafnt hjá aðalpersónum og að viðfangsefni teiknimyndanna dreifist á aldurshópinn. Þáttaröðin Blæja (Bluey) sem frumsýnd var í lok árs 2021 fór alveg á flug og hefur vakið gríðarlega athygli. Blæja hefur svo tekið fram úr Hvolpasveitinni sem vinsælasti þátturinn í dagskránni, sem er gífurlegt afrek. Gamalt efni í bland við nýtt var á dagskrá. Áhersla var sem áður lögð á efni sem byggist á fræðslu en þar má nefna Bjössa Brunabangsa, Úmísúmí og Tölukubbana.

Norrænt samstarf í B15

RÚV hefur verið virkur þátttakandi í samstarfi Nordvision og árið 2022 gekk RÚV inn í samstarfsverkefnið B15. Í því verkefni skuldbindur RÚV sig við að framleiða og senda eina þáttaröð til hinna Norðurlandanna og fær í staðinn 14 þáttaraðir. Eftir eitt ár í þessu samstarfi hefur KrakkaRÚV fengið mikið af efni sem hefur náð miklum vinsældum á meðal barna á Íslandi. Þar má nefna Bursta broddgölt, Fílsa og vélarnar og Ofurhetjuskólann. Fyrsta þáttaröðin sem KrakkaRÚV sendi var Sagan um Randalín og Munda og 2024 var framlag KrakkaRÚV til B15 serían Hvítar lygar.

Barnamenningarhátíð

KrakkaRÚV var hluti af Barnamenningarhátíð líkt og önnur ár. Hátíðin var í beinni útsendingu á RÚV og var send út frá Stúdíó A. Ritstjórn Krakkafrétta stóð fyrir námskeiði fyrir ungt fréttafólk nokkru fyrr og sprenglærðir fréttamennirnir skiluðu af sér viðtölum við listamenn, skipuleggjendur og gesti sem voru svo sýnd í Krakkafréttum og dagana á eftir, ásamt að klippifærsla úr hverri frétt fór á ruv.is.

UngRÚV

UngRÚV er þjónusta fyrir ungmenni í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólanema. Lögð er áhersla á dagskrárefni fyrir unglinga og eftir unglinga, beinar útsendingar frá viðburðum og vandað efni í framleiðslu RÚV. UngRÚV er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og RÚV.

Upptakturinn  

Í Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, gefst ungu fólki tækifæri til að senda inn tónsmíð og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með listnemum og listafólki. UngRÚV hefur verið hluti af Upptaktinum frá upphafi ásamt tónlistarhúsinu Hörpu, Barnamenningarhátíð, Tónlistarborginni Reykjavík og Listaháskóla Íslands.

UngRÚV sá um upptökur og framleiðslu á kynningarinnslögum með viðtölum við höfunda allra tónsmíðanna. Tónleikarnir voru sýndir á vef UngRÚV.

Menningarhúsið Hof og Harpa tónlistarhús fóru í samstarf á árinu sem gerði ungmennum í grunnskólum Norðurlands eystra kleift að taka þátt í þessum frábæra viðburði.

Vika6

Kynfræðsluvikan, Vika6, var tekin með trompi eins og önnur ár. Gerð voru fimm myndbönd með þekktum einstaklingum og voru þau sýnd í sjónvarpinu strax á eftir Krakkafréttum. Í viku 6 velja ungmennin þema og í ár var það líkaminn og kynfærin. Í ár var lögð enn meiri áhersla á fræðslugildi myndbandanna. Á UngRÚV-spilaranum var mikið af innlendu og erlendu fræðslu- og skemmtiefni, bæði nýju og eldra efni.

Skólahreysti

RÚV hefur lengi verið heimili Skólahreysti. Haldnar voru þrjár undankeppnir; tvær í Reykjavík, í Laugardalshöllinni, og ein á Akureyri. Alls kepptu 60 skólar í undanriðlinum og aðeins 12 komust í úrslit.

Skrekkur

Skrekkur, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík, var á sínum stað eins og önnur ár. Nemendur búa til atriði sem innheldur söng, dans og leik. Atriðin eru oftar en ekki um málefni sem standa þeim nærri. Keppnin hefur haldið áfram að vaxa og framleiðslan í kringum hana hefur þróast og stækkað. Í aðdraganda undankeppnanna heimsótti UngRÚV alla þátttökuskólana og tók upp kynningarinnslög sem voru sýnd í dómarahléinu á undanúrslitakvöldunum í beinu streymi á vef UngRÚV. Fyrir úrslitin voru tekin upp ný kynningarinnslög í stúdíói A með þeim skólum sem komust í úrslit. Öll atriðin úr Skrekk voru birt á vef UngRÚV. Á samfélagsmiðlinum Instagram var hægt að fylgjast með stemningunni baksviðs sem vakti mikla lukku.

Fiðringurinn á Norðurlandi og Skjálftinn á Suðurlandi

Vinsældir Skrekks hafa verið hvetjandi fyrir sveitarfélög í öðrum landshlutum til að halda hæfileikakeppni ungmenna. Fiðringurinn á Norðurlandi var haldinn í Hofi og þar kepptu skólar á Norðurlandi og í Skjálftanum á Suðurlandi mættu skólar á Suðurlandi til leiks. UngRÚV tók upp báða viðburðina og voru atriðin birt í UngRÚV-spilaranum.

Danskeppni Samfés, Rímnaflæði, hönnunarkeppnin Stíll og Söngkeppni Samfés

UngRÚV hefur verið í góðu samstarfi við Samfés undanfarin ár og hélt það áfram í ár. UngRÚV fjallaði um viðburðina Danskeppni Samfés, Rímnaflæði, hönnunarkeppnina Stíl og söngkeppni Samfés.

Sýnileiki í dagskrá

Aukin áhersla hefur verið á sýnileika ungmenna í línulegri dagskrá. Umfjöllun um ungt fólk hefur verið aukin í Kastljósi, fréttum, Landanum og í fleiri dagskrárliðum. Það er í samræmi við stefnu RÚV og þjónustusamning RÚV við menningar- og viðskiptaráðuneyti þar sem segir meðal annars að lögð verði áhersla á þjónustu við börn og ungmenni og boðið upp á fjölbreytt efni, sem ætlað er börnum og ungmennum, þvert á miðla.

EKKO

Í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið voru framleidd myndbönd til þess að vekja athygli á EKKO-málum í framhaldsskólum. EKKO er skammstöfun fyrir einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi. Með myndböndunum er ætlunin að efla vitund og skilning nemenda um EKKO-mál á jafningjagrundvelli og tekin voru viðtöl við framhaldsskólanemendur.

U-LYNC

Ungmennaráðstefnan U-LYNC var haldin í Reykjavík í september með þátttöku áttatíu ungmenna frá tíu borgum á Norðurlöndum. Þau komu saman til þess að ræða málefni sem skipta þau máli; áhyggjur sínar og mögulegar lausnir sem þau vildu koma á framfæri við þau sem stjórna. Gerð voru myndbönd um þau fimm þemu sem rædd voru og rætt við þátttakendur um málefni og lausnir sem komu fram á ráðstefnunni. Einnig var gerð stutt mynd um undirbúning ráðstefnunnar.

Aðkeypt efni

Aukin áhersla hefur verið lögð á kaup á erlendu efni fyrir ungt fólk. Í gegnum norræna samstarfið B15 hefur RÚV fengið frábæra norræna þætti sem tileinkaðir eru ungu fólki.