Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2023 voru afhentar í byrjun árs. Gerður Kristný hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir að Gerður hefur verið mikilvirk á ritvellinum undanfarna áratugi. Hún er líka fjölhæf og fæst við ólíkar gerðir bókmennta; skrifar bæði fyrir börn og fullorðna og lætur jafn vel að fást við bundið mál og laust.
Tónlistarkonan Una Torfa hlaut Krókinn 2023, viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu. Hún kom af miklum krafti inn í íslenskt tónlistarlíf árið 2022 með þröngskífunni Flækt og týnd og einmanna. Síðan þá hefur hún orðið ein af okkar allra vinsælustu tónlistarkonum og sent frá sér lög sem hafa náð miklum vinsældum í útvarpi.
Á sama tíma og Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2023 voru afhentar var tilkynnt um orð ársins sem hlutendur RÚV völdu. Það var orðið gervigreind og það var einnig valið sem orð ársins hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Aðeins einu sinni áður hefur orð ársins verið það sama hjá Ríkisútvarpinu og Árnastofnun en það var orðið var hamfarahlýnun árið 2019. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum nefnir í tengslum við gervigreind. „Undanfarin ár hefur ný gervigreindartækni sem byggist á marglaga tauganetum vakið mikla athygli. Tauganetin eru stærðfræðilíkön sem geta geymt og unnið með myndir eða texta. Myndirnar eða textinn eru þá greind í eindir sem hægt er að staðsetja í netinu með vigurreikningi. Mest áberandi eru annars vegar líkön sem vinna með myndir og hins vegar líkön sem vinna með texta.“
Könnun Maskínu á trausti fréttastofa var gerð með nýjum og ítarlegri hætti í desember 2023. Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós yfirgnæfandi meirihluti landsmanna treysta fréttum RÚV. 73,5% aðspurðra segjast bera mikið traust til fréttastofu RÚV, um 14% segjast hvorki treysta né vantreysta fréttastofunni og 12% segjast bera lítið traust til hennar. Aðrir miðlar standa RÚV langt að baki. Jafnframt sögðust meira en 85% landsmanna treysta því að fréttastofa RÚV greini satt og rétt frá. Traust landsmanna á fréttaflutningi er mælt ár hvert í samræmi við þjónustusamning RÚV og menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Þessar kannanir MMR/Maskínu hafa verið framkvæmdar frá 2017 og hefur traust fréttastofu aukist nokkuð frá þeim tíma. Mest mældist traust fréttastofu 75%, í nóvember 2020, en minnst 64%, í nóvember 2018. Könnunin fór fram 6. til 20. desember 2023 og náði til Íslendinga, 18 ára og eldri. Hún var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, og voru svarendur 994 talsins.
Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna var rætt um konur í kvikmyndagerð á málþingi í útvarpshúsinu. Guðrún Elsa Bragadóttir, lektor við kvikmyndalistadeild LHÍ, flutti erindi um hvernig konur hafa verið hlutgerðar í kvikmyndum í gegnum tíðina út frá karllægu sjónarhorni. Þórey Þórsdóttir hjá dagskrárdeild sjónvarps sagði síðan frá bresku heimildarþáttaröðinni Konur í kvikmyndagerð (e. Women Make Film) þar sem sýndar voru margvíslegar hliðar kvikmyndagerðar og eingöngu var stuðst við dæmi úr kvikmyndum sem konur leikstýra. Í mars og apríl voru svo sýndar um 35 innlendar og erlendar kvikmyndir sem framleiddar hafa verið undir leikstjórn kvenna.
Á MenntaRÚV er efni sem ætlað er börnum og ungmennum frá 6 ára aldri. Efninu er skipt eftir skólastigum, allt frá yngsta stigi til framhaldsskóla. Einkum er um að ræða fræðsluefni af ýmsu tagi sem framleitt er af Ríkisútvarpinu og íslenskum kvikmyndaframleiðendum. MenntaRÚV er ætlað að vera miðstöð fyrir fræðslu- og kennsluefni á íslensku eða með íslenskum texta, sérstaklega með þarfir kennara og nemenda í huga. MenntaRÚV er samstarfsverkefni RÚV og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu (MMS) og ritstjórn er skipuð fulltrúum beggja aðila. Markmiðið er að MenntaRÚV auki og auðveldi aðgengi kennara og nemenda að stuðningsefni við kennslu í öllum námsgreinum. MenntaRÚV er enn í mótun og í samstarfi RÚV og MMS verður efnisframboð aukið jafnt og þétt. Efni á MenntaRÚV er opið öllum en stefnt er að því að setja einnig upp aðgangsstýrt svæði fyrir höfundavarið efni sem verður aðgengilegt skólum landsins.
Daglegi hlaðvarpsþátturinn RÚV English Radio undir stjórn Darren Adam var tilnefndur til alþjóðlegra verðlauna New York Festivals Radio Awards 2024 í flokki menningar- og myndlistarþátta. Útvarpsverðlaunin New York Festivals Radio Awards eru hluti af hátíðum með aðsetur í New York borg. Veitt eru árleg list- og fjölmiðlaverðlaun „til að heiðra nýstárlegt hljóðefni af öllum tegundum og sniðum frá framleiðendum, stöðvum og netkerfum um allan heim,“ segir á vefsíðu verðlaunanna. Þetta er í fyrsta sinn sem þáttur gerður á Íslandi hlýtur tilnefningu til þessara verðlauna. RÚV English Radio hófst í byrjun árs 2023 með það markmið að flytja enskumælandi íbúum Íslands eða aðdáendum landsins daglegan útvarpsþátt á ensku. Í safni hlaðvarpsins eru meira en 300 frumsamdir þættir þar sem fjallað er um allt milli himins og jarðar; fréttir, menningu, tónlist, tungumál, viðburði, fólk, staði og fleira. Meðal efnis má nefna sögu íslenskrar tónlistar með kynningu frá blaðakonunni Lydiu Athanasopoulou og vikuleg örnámskeið í íslensku máli með Atla Sigþórssyni, verkefnisstjóra aðgengis, þar sem fréttir eru lesnar á auðskildu máli og útskýrðar fyrir öllum sem vilja læra íslensku.
Þór Ægisson fréttamyndatökumaður lét af störfum eftir 36 ára farsælt starf hjá RÚV.
Hann var iðulega á vettvangi að skrá söguna þegar mikið lá við. Fyrsta ferð Þórs á vegum RÚV var þegar hann fylgdi Vigdísi Finnbogadóttur forseta í opinbera heimsókn til Sovétríkjanna. Hann var í Rúmeníu í kjölfar þess að Nicola Ceausuescu var steypt af stóli og einnig í Berlín þegar múrinn féll. Þór var mættur til Bandaríkjana strax í kjölfar 11. sept. 2001 og fór til Tælands eftir flóðbylgjuna miklu á Indlandshafi jólin 2004. Ótaldar eru þá allar fréttaferðirnar hér innanlands og nú síðast fyrir nokkrum dögum við upphaf eldgoss á Reykjanesskaga. RÚV kann Þór bestu þakkir fyrir samstarfið og hans mikilvæga framlag til miðlunar frétta og upplýsinga frá lykilatburðum hér heima og erlendis frá.
Ríkisútvarpið hóf þátttöku í samevrópskri fréttamiðlun undir heitinu Evrópskt sjónarhorn, A European Perspective. Verkefnið felst í því að miðlar innan EBU, samtaka evrópskra ljósvakamiðla í almannaþágu, deila fréttum og þekkingu sín á milli. Valdar fréttir frá RÚV birtast á vefsetrum þeirra miðla sem þátt taka í verkefninu og fréttir víða að frá Evrópu birtast á vef RÚV. Fréttir evrópskra miðla má finna á yfirlitssíðu erlendra frétta á RUV.is. Markmiðið er að veita almenningi aðgang að fréttaefni víða að úr Evrópu, á fjölmörgum tungumálum og ýta þannig undir menningarlega fjölbreytni. Miðlarnir sem taka þátt eru 19 í 16 löndum víða um Evrópu, frá Finnlandi í norðri til Ítalíu í suðri og frá Georgíu í austri til Íslands í vestri. Með þátttöku í Evrópsku sjónarhorni veitir RÚV aðgang að fjölbreyttum fréttum af erlendum vettvangi á íslensku og veitir aðgang að fréttum frá Íslandi sem gætu haft skírskotun fyrir evrópska miðla og lesendur.
Ráðstefna um fjölbreytileika, jafnræði og inngildingu var haldin á vegum RÚV og EBU, Samtaka evrópskra almannaþjónustumiðla (European Broadcasting Union (EBU)) í Útvarpshúsinu. Ráðstefnan beindi sjónum að mikilvægi fjölbreytileika, jafnréttis og inngildingar í starfsemi almannaþjónustumiðla (Diversity, Equity & Inclusion). Meðal þátttakenda voru fulltrúar frá fjölmörgum evrópskum almannaþjónustumiðlum, og dagskráin fól í sér fjölbreytt erindi sem veittu dýrmæta innsýn. Hátt í 30 erlendir gestir komu á ráðstefnuna auk þátttakenda frá RÚV og EBU. Jean-Philip De Tender aðstoðarframkvæmdastjóri EBU sat ráðstefnuna og flutti opnunarávarp sem og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri, sem jafnframt er formaður stýrihóps EBU um fjölbreytileika, jafnræði og inngildingu. Áhersla ráðstefnunnar á jafnréttismál í almannaþjónustu og staða þess var enn frekar undirstrikuð af Tinatin Berdzenishvili, útvarpsstjóra georgíska ríkissjónvarpsins og formanni jafnréttisnefndar EBU. Ráðstefnan lauk á jákvæðum nótum með umræðum um framtíðarsýn og verkefni sem EBU hyggst takast á við á sviði fjölbreytileika og jafnréttis. Í kjölfarið hafa myndast ný tækifæri til samstarfs og aðgerða sem munu móta framtíð fjölbreytileika og inngildingar í evrópskum almannaþjónustumiðlum. Hópurinn þáði einnig heimboð Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands og fékk þar tækifæri til að ræða við hann um áherslur hans á sviði fjölbreytileika og inngildingar.
Í reglum um kosningaumfjöllun RÚV var ákveðið að heimila notkun á efni úr kosningaumfjöllun RÚV með tilteknum takmörkunum og má þar nefna: Óska skal eftir heimild frá RÚV fyrir notkun efnis og skal þá tilgreint hvaða efni um ræðir, ekki er heimilt að stytta efnið og framboði er óheimilt að nota ummæli eða svör annarra frambjóðenda. Á undanförnum árum hefur RÚV kappkostað að vera liðlegt í veitingu slíkra heimilda sem þó eru að jafnaði háðar skilyrðum og þess ætíð gætt að ritstjórnarlegu sjálfstæði almannaþjónustumiðilsins sé ekki stefnt í hættu. Af þeim sökum hafa þrengri viðmið snúið að fréttatengdu efni en almennu dagskrárefni. Ekki hefur verið heimilað að nýta efni úr fréttum Ríkisútvarpsins í auglýsingar eða í áróðursskyni.
Félag íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, og RÚV undirrituðu samning um greiðslur til tónlistarfólks fyrir framkomu í miðlum RÚV og á tónleikum sem eru teknir upp. Þessi nýi samningur leysti eldri samning frá 2008 af hólmi. Helstu atriðin í nýjum samningi lúta að samkomulagi um greiðslur fyrir tónleikaupptökur, þar sem kveðið er á um greiðsluskyldu tónleikahaldara til flytjenda fyrir hljóðritun eða útsendingu. Í samningnum eru ákvæði um endurnot á eldri upptökum og skyldum RÚV til framleiðslu tónlistarefnis. Þá hafa ýmis atriði í samningnum voru færð til nútímalegs horfs í ljósi breyttra miðlunarleiða.
Vodafone tilkynnti um breytingar á útsendingu sinni í gegnum loftnet þar sem meðal annars var hætt að þjónusta gamla loftnetsmyndlykla fyrirtækisins. Markmið breytinganna er að bæta gæði og áreiðanleika útsendingar en jafnframt þurtu notendur að gera viðeigandi ráðstafanir svo búnaður þeirra væri samhæfður nýja kerfi Vodafone.
Lögð var niður útsending RÚV SD og í staðinn komu útsendingar um UHF-loftnet á RÚV HD og RÚV 2 HD sem eru betri og áreiðanlegri en gamla kerfið. Notendendur með eldri gerð af sjónvarpi, sem ekki var með DVB-T2-móttakara, þurftu að uppfæra búnaðinn sinn með því að kaupa sjónvarpsmóttakara eða fá myndlykil leigðan hjá Vodafone.
RÚV ORÐ er nýr vefur sem notar sjónvarpsefni til að aðstoða fólk við að læra íslensku. Markmiðið með vefnum er að bæta aðgengi innflytjenda að íslensku samfélagi og lýðræðislegri umræðu og stuðla að inngildingu fólks með fjölbreyttan bakgrunn í íslenskt samfélag. RÚV ORÐ er samstarfsverkefni RÚV, menningar- og viðskiptaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis við Språkkraft, sem er óhagnaðardrifið sænskt félag sem hannar máltæknilausnir sem auðvelda tungumálanám. Á vefnum geta notendur valið sjónvarpsefni frá RÚV og tengt það við tíu tungumál: ensku, frönsku, þýsku, lettnesku, litáísku, pólsku, rúmensku, spænsku, taílensku og úkraínsku. Notendur velja færnistig í samræmi við íslenskukunnáttu sína, samkvæmt sex stigum evrópska tungumálarammans, og geta nálgast efni sem hentar þeim — allt frá einföldum orðum og setningum upp í flóknara málfar. Íslenskur texti sem birtist á skjánum er litakóðaður í samræmi við færnistig notandans. Vefurinn er gagnvirkur og býður upp á möguleika á að vista orð til að læra síðar ásamt því að leysa próf og verkefni.
Innskráning í spilara RÚV á vefnum (ruv.is/sjonvarp) var virkjuð fyrir Íslendinga erlendis og er í boði fyrir RÚV og RÚV 2 en ekki fyrir útvarp. Innskráningin virkar þannig að íslenskir notendur sem staddir eru erlendis og hafa ekki getað horft á réttindavarið efni, beinar útsendingar eða upptökur, fá núna upp glugga sem segir þeim að þau geti skráð sig inn til að fá aðgang að efni sem er réttindavarið utan Íslands. Með sams konar hætti er hægt að horfa á upptökur sem eru réttindavarðar, erlenda þætti, kvikmyndir og upptökur af íþróttaefni. Glugginn kemur aðeins fyrir notendur sem staddir eru erlendis og aðeins þegar um réttindavarið efni er að ræða. Innskráningin er framkvæmd með þjónustunni „Kenni“ þar sem notendur auðkenna sig með rafrænum skilríkjum.
Útvarpsleikritið Ástarvitinn eftir Guðmund Felixson og Ylfu Ösp Áskelsdóttur var tilnefnt til ljósvakaverðlaunanna Prix Europa. Verðlaunahátíðin fór fram í Berlín í Þýskalandi 6. - 11. október. Ástarvitinn varr tilnefndur í flokki útvarpsleikrita. Leikstjóri var Eva Halldóra Guðmundsdóttir og Gísli Kjaran Kristjánsson sá um hljóðvinnslu. Katrín Halldóra Sigurðardóttir fór með aðalhlutverkið í Ástarvitanum og lék þerapistann Jónínu Guðmann sem fékk til sín góða gesti í hlaðvarpið Ástarvitann sem hún aðstoðaði í ólgusjó ástarlífsins.
Fimmtugasta og áttunda starfsár Stundarinnar okkar hófst í október með sýningum á nýju efni undir heitinu Tökum á loft. Þáttaröðin var tekin upp í nýju sýndarmyndveri RÚV og var fyrsta þáttaserían af Stundinni okkar þar sem notast var við þessa tækni sem gerir kleift að stækka heiminn og sögusviðið enn frekar. Loft hefur svifið um loftin blá frá örófi alda án þess að lenda nokkurn tímann á jörðu. Það kynnist ævintýralegri tilvist mannsbarna í gegnum sjónaukann sinn og endurspeglar sjálft sig í þeim. Hugmynd og sögusvið sköpuðu Erla Hrund Halldórsdóttir og Agnes Wild en handritshöfunar voru Erla Hrund Halldórsdóttir, Hekla Egils, Guðmundur Einar og Bjarni Kristbjörnsson. Í aðalhlutverkum voru Andrés P. Þorvaldsson Laskowski sem Loft og Agnes Emma Sigurðardóttir sem stjórnaði sjónaukanum Sjón ásamt að ljá henni rödd sína.
Fjölmiðlar og fræðsla var yfirskrift Útvarpsþings RÚV 2024 sem haldið var í Útvarpshúsinu 3. október. Inngangsfyrirlestur flutti Kalle Sandhammar, forstjóri UR - Utbildningsradion í Svíþjóð, sem framleiðir sjónvarps- og útvarpsefni fyrir skóla og almenning. Aðrir fyrirlesarar voru Þórdís Jóna Sigurðardóttir forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Elfa Lilja Gísladóttir verkefnastjóri Listar fyrir alla, Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og fyrrverandi forseti Íslands, Ingunn Lára Kristjánsdóttir fréttamaður og verkefnastjóri, Tinna Steindórsdóttir kennari í Brekkubæjarskóla á Akranesi og Skúli Bragi Geirdal verkefnisstjóri hjá Fjölmiðlanefnd. Auk þess kynntu Hafsteinn Vilhelmsson og Þorgeir Ólafsson UngRÚV og MenntaRÚV. Útvarpsþingi lauk svo með pallborðsumræðum.
RÚV hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar - hreyfiaflsverkefnis. Viðurkenningin er veitt árlega til þeirra fyrirtækja og stofnana sem náð hafa að jafna kynjahlutföll í framkvæmdastjórnum. RÚV hefur verið einn af bakhjörlum verkefnisins um árabil og það er sérstaklega ánægjulegt að í ár er metfjöldi viðurkenningarhafa. Sama dag gróðursettu svo fulltrúar viðurkenningarhafa tré í Jafnréttislundi FKA í Heiðmörk; alls 130 tré fyrir viðurkenningarhafana alla. Í framkvæmdastjórn RÚV eru auk útvarpsstjóa 8 fulltrúar og þar af fjórar konur.
Öllum útvarpsútsendingum RÚV á langbylgju hefur verið hætt og öryggisútsendingar RÚV í útvarpi verða framvegis á Rás 2 um FM-dreifikerfið, sem hefur verið þétt mjög mikið á undanförnum árum. Langbylgjumastrið á Gufuskálum hefur verið tekið úr notkun. Hlutverk öryggisútsendinga í útvarpi er að tryggja samband um allt land og á næstu miðum og hafa verið á langbylgjunni í áratugi. Á þeim tíma hefur margt breyst í tæknilegu umhverfi og ber þar hæst að fáir landsmenn eiga nú útvarp sem tekur við langbylgjusendingum og þannig útvarpstæki eru ekki í bílum lengur. Útsendingarkerfi langbylgjunnar, ekki síst mastrið á Gufuskálum, er komið á aldur og mikill kostnaður fylgir endurbyggingu og öðrum tæknilegum uppfærslum á þessu kerfi. Langbylgjumastrið á Gufuskálum er hæsta mannvirki á Íslandi, 412 metrar. Það var reist 1963 fyrir LORAN-C staðsetningarkerfi Breta og Bandaríkjamanna og tekið undir langbylgjusendi RÚV árið 1997.
Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. hefur ákveðið að endurráða Stefán Eiríksson í stöðu útvarpsstjóra til fimm ára, í samræmi við heimild í 11. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Stefán Eiríksson var ráðinn útvarpsstjóri í janúar 2020 af stjórn Ríkisútvarpsins ohf. og tók til starfa 1. mars það ár. Samkvæmt 11. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, skal útvarpsstjóri ráðinn til fimm ára í senn og er heimilt að endurráða hann einu sinni. Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. ákvað á fundi sínum í um miðjan október að nýta þessa heimild, eftir að hafa óskað eftir og farið yfir greinargerð útvarpsstjóra þar sem hann gerði stjórn grein fyrir áherslum sínum og framtíðarsýn til næstu ára, fengi hann til þess umboð stjórnar.
Dreifikerfi RÚV er mikilvægur hlekkur í almannavörnum landsins. Til að þétta útsendingarnet RÚV og þar með að auka bæði öryggi og þjónustu var ráðist í margvíslegar aðgerðir á árinu. Settir voru upp 4 nýir FM sendistaðir og til að tryggja rekstraröryggi var gömlum sendum skipt út fyrir nýja. Nýju sendarnir þurfa mun minna rafmagn en þeir gömlu og það er umhverfisvænt auk þess að spara mikið fé. Settir voru upp 26 nýir sendar sem dreifðust um land allt. Þá er nauðsynlegt er að varaafl sé til staðar á sendistöðum til að tryggja órofinn rekstur FM kerfisins. Á árinu var varaafli komið fyrir á 16 stöðum og auk þess var varaleiðum komið fyrir ef eitthvað fer úrskeiðis. Búnaður, sem notar gervihnött fyrir netsamskipti (Starlink), var settur upp á Vaðlaheiði en á fjórum öðrum stöðum eru varaleiðirnar FM endurvarp.
Sögulegur viðburður varð í íslensku sjónvarpi þegar söfnunar- og skemmtiþátturinn Búðu til pláss var samtímis í beinni útsendingu á RÚV, Sjónvarpi Símans og Stöð 2 í tilefni af 20 ára afmæli UNICEF á Íslandi. Þetta var í fyrsta sinn sem þessar þrjár sjónvarpsstöðvar sameinuðust um útsendingu. Í þættinum var úrval skemmtiatriða, grín, dans og tónlist þar sem landsþekktir einstaklingar og velunnarar UNICEF lögðu sitt af mörkum í þágu málstaðarins. Meginmarkmið þáttarins var að fjölga í hópi heimsforeldra UNICEF, mánaðarlegra styrktaraðila Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Sérstök áhersla var lögð á hörmungar barna á Gaza og hvernig fólk getur lagt sitt af mörkum til að styðja við börn sem misst hafa allt sitt í stríði sem þau bera enga ábyrgð á.
Kosningaumfjöllun RÚV vegna Alþingiskosninga í nóvember 2024 var fjölbreytt og ítarleg. Umfjöllunin var á sérstökum kosningavef, í sjónvarpi, útvarpi og samfélagsmiðlum. Hún hófst 1. nóvember með leiðtogaumræðum í sjónvarpssal og þeir hittust aftur í sjónvarpssal daginn fyrir kosningarnar 29. nóvember. Þá voru ítarleg sjónvarpsviðtöl við forystumenn stjórnmálaflokka í þáttunum Forystusætið, haldnir voru kjördæmafundir með oddvitum allra framboða, málefnaþættir í Kastljósi og málefnaumfjöllun á vef, í hlaðvarpi og útvarpi. Opnaður var kosningavefur þar sem fólk gat borið skoðanir sínar saman við stefnumál flokkanna og að auki var kosningaumfjöllun á samfélagsmiðlum RÚV. Kosningavaka var í sjónvarpi og útvarpi að kvöldi kjördags, 30. nóvember og kosningauppgjör í sjónvarpssal um hádegisbil 1. desember með þátttöku formanna flokka sem náðu kjöri til Alþingis.
Lagið Ó, Grýla taktu þér tak með hljómsveitinni FLOTT sigraði í Jólalagakeppni Rásar 2. Lagið var samið af Ragnhildi Veigarsdóttur og Vigdísi Hafliðadóttur og er vísun í jólalagið Ó, Grýla sem Ómar Ragnarsson gerði frægt á sínum tíma. Lagið er ákall til Grýlu í von um að hún breyti viðhorfi sínu til barna. Ragnhildur segist hafa búið til undirspilið fyrir að verða tveimur árum og þá hafi Vigdís fengið þá hugmynd að nota það í jólalag sem hún vildi að fjallaði um Grýlu sjálfa. „Lag sem stendur með börnunum, segir henni að hætta að borða börn - sem er kannski hægt að túlka á mismunandi hátt í samfélaginu í dag,“ segir Ragnhildur.
Jólalag Ríkisútvarpsins árið 2024 ber titilinn Augnablik um jól eftir kammerhópinn Cauda Collective. Lagið fjallar um töfrana í hversdeginum í desember; að heyra marrið í snjónum, sjá jólaljósin og finna kyrrðina í hjartanu. Cauda Collective hefur lagt sig fram við að leita út fyrir rammann í tónlistarflutningi sínum og leitar gjarnan leiða til að túlka gamla tónlist í samtali við nútímann. Þær hafa til dæmis gefið út plötuna Adest Festum, sem er þeirra eigin túlkun á Þorlákstíðum og samið tónverk sem byggir á tíðasöngvum Úrsúlu eftir Hildegard von Bingen. Hópinn skipa Sigrún Harðardóttir á fiðlu, Þóra Margrét Sveinsdóttir á víólu, Þórdís Gerður Jónsdóttir á selló og Björk Níelsdóttir sópran.
Mikill meirihluti þeirra 3000 jólakveðja sem bárust til birtingar í Ríkisútvarpinu þessi jólin var pantaður á netinu. Mikil endurnýjun hefur orðið í hópi þeirra sem senda kveðjur og nýir viðskiptavinir ekki verið fleiri en um nýliðin jól. Landsmenn eru orðnir vanir nýju fyrirkomulagi og mátti greina það á formi kveðjanna sem voru um margt fjölbreyttari og látlausari en fyrri ár, þótt hátíðleikinn héldist og orðið "hugheilar" mest lesna orðið sem fyrr. Sú nýbreytni var að kveðjur voru flokkaðar eftir landshlutum en ekki sýslum eins og tíðkast hefur áratugum saman. Kveðjurnar voru lesnar að kvöldi 22. desember og allan liðlangan daginn á Þorláksmessu. Sigvaldi Júlíusson þulur hélt utan um lesturinn en auk hans lásu reyndir þulir kveðjurnar; Anna Sigríður Einarsdóttir, Atli Freyr Steinþórsson, Stefanía Valgeirsdóttir, Anna María Benediksdóttir og Guðríður Leifsdóttir.